
Margar áskoranir framundan
05.08.2017
Ég vil byrja á því að þakka stjórn Landssambands kúabænda fyrir að gefa mér það tækifæri að starfa fyrir kúabændur og taka þátt í þeim krefjandi og mikilvægu verkefnum sem framundan eru á næstu mánuðum og misserum.
Í tæpan áratug eða svo, eða allt frá því að ég útskrifaðist frá Hvanneyri á vordögum 2008, hef ég fylgst með umræðu og þróun í búgreininni erlendis frá, og því mætti segja að þar hafi gests augað verið notað. En ekki skal fullyrða neitt um hversu glöggt það er, ekki að svo stöddu í það minnsta.
Það hefur gustað um landbúnaðinn á þessum tíma, jafnt hlýir sem kaldir vindar. Það sem hefur líklega risið hvað hæst í umræðunni á þessum tíma eru samskipti Samkeppninsstofnunar og MS annars vegar, og svo nýir búvörusamningar, sem enn eru í ferli. Í þeim umræðum hefur margur maðurinn komið fram á ritvöllinn og greinilegt að þetta eru málefni sem fólk lætur sig almennt varða. Sem eðlilegt er, allir þurfa jú á mat að halda og því eru fáir atvinnuvegir sem snerta jafn marga eins og landbúnaðurinn.
Það fylgja því þó áskoranir að starfa við atvinnuveg sem er mikilvægur í hugum fólks, og margir hafa skoðun á. Með þéttbýlisvæðingunni hefur grunnþekking hins almenna borgara á starfsaðstæðum bænda minnkað. Sem dæmi má nefna, þá hef ég margsinnis rekið mig á að fólk gerir sér engan veginn grein fyrir öllu því ferli sem þarf að eiga sér stað áður en skepna kemur til nytja á búinu, sem mjólkurkýr eða sláturgripur, og hvaða hömlur það setur bændum t.d. við að bregðast við breyttum aðstæðum á mörkuðum. Kynning á störfum og lífi bænda til að auka skilning og jákvæðni neytenda er því mikilvægur þáttur í markaðssetningu landbúnaðarafurða, og það verkefni verður síst minna á næstu árum þar sem þeim fer fjölgandi sem teljast bornir og barnfæddir innan þéttbýlismarka.
Um áramót urðu býsna stórar breytingar á starfsumhverfi Landssambands kúabænda, þegar niðurfelling á búnaðargjaldi olli straumhvörfum á starfsumhverfi LK. Það er eðlilegt að við slíkar breytingar á aðstæðum, vilji margir staldra örlítið við og velta fyrir sér tilgangi, kostum og göllum slíkra samtaka. Ekki þarf að koma á óvart að sitt sýnist hverjum. En þegar öllu er á botninn hvolft þá eru slík samtök mikilvægt stjórnsýslutæki fyrir atvinnuveginn sem heild, því lífsbaráttan er hörð og þó að ytri aðstæður séu jákvæðar eina stundina, geta þær breyst fljótt og erfitt getur reynst að bregðast við slíku með hvern í sínu horni. Ég vil því hvetja alla kúbændur til að láta starf síns stéttarsambands sig varða, og auka kraft þess og vægi í mótun starfsaðstæðna atvinnugreinarinnar með félagsaðild að samtökunum, séu þeir ekki þar nú þegar.
Þar sem ég sleit barnsskónum á búi þar sem holdanaut voru ræktuð, þá verður því ekki neitað að mér hlýnar eilítið um hjartaræturnar að sjá aukinn kraft settan í þá búgrein hérlendis. Nautakjöt býr að því að vera vara sem hefð er fyrir að neyta víða um heiminn (Indland undanskilið, að sjálfsögðu), þannig að aukinn fjöldi ferðamanna ásamt þróun í matarmenningu Íslendinga skapar sóknartækifæri fyrir nautakjötsframleiðendur.
Mér þótti áhugavert nú fyrr í sumar að lesa viðtal við danskan nautgripabónda sem býr með hjörð af Hereford kyni. Ástæða viðtalsins var sú að þessi hjörð, sem telur um 100 kýr, hefur skilað af sér um 1 milljón danskra króna í hagnað árlega (fyrir skatta og afskriftir) síðustu ár. Lykilinn að velgengni bóndans segir hann vera lágmörkun kostnaðar, en skepnurnar ganga úti allt árið, og byggingar sem veita eiga skjól eru allar mjög einfaldar. Sömuleiðis er fóðurkostnaður í lágmarki, nautin eru eingöngu fóðruð á gróffóðri. Vitanlega er ekki hægt að heimfæra allar lausnir frá suðlægari breiddargráðum óbreyttar á íslenskan búskap, en ég get allavega ekki neitað því að þetta fær mig til að hugsa að krónutalan eftir hvern grip sé mælieining sem gleymist stundum þegar talað er um velgengni í búskap, og einbeitingin fari að mestu í afurðamagn.
En ekki má gleyma gleðinni, og þá er vert að minnast á Sveitasælu, landbúnaðarsýningu og bændahátíð í Skagafirði þann 19. ágúst næstkomandi. Félagslegi þátturinn er mikilvægur hluti af starfi bóndans sem ber að rækta.
Með von um gott samstarf.
Axel Kárason