Beint í efni

Margar afurðastöðvar einnig í vatnssölu

30.04.2011

Víða erlendis eru afurðastöðvar í mjólkuriðnaði einnig með vatnspökkun og virðist sem þónokkur aukning sé á þessari þróun. Þessi framleiðsla fer afar vel saman við mjólkurpökkun og þar sem dreifikerfi afurðanna er til staðar, er tiltölulega einfalt að bæta vatninu í vörulínuna. Nýlega kynnti franska afurðastöðin Danone að þrátt fyrir hækkandi verð á matvælum í heiminum hafi fyrirtækinu tekist að auka sölu þess.

 

Söluaukningin árið 2010 nam 8,5% og var veltan 4,78 milljarðar Evra eða u.þ.b.789 milljarðar íslenskra króna. Forsvarsmenn Danone þakka þessari miklu aukningu ekki eingöngu vegna góðrar sölu á jógúrti, heldur einnig á drykkjarvatni!

 
Á þessu ári hefur Danone þurft að hækka nokkuð allar vörur sínar vegna hækkunar aðfanga til bænda og spáir fjármálastjóri fyrirtækisins, Pierre-André Terisse, að verð á mjólkurvörum í öllum heiminum eigi eftir að hækka enn frekar. Þessi staðreynd setji pressu á afurðafyrirtækin við að halda uppi veltunni sinni, enda ljóst að á einhverjum tímapunkti heltast einhverjir neytendur úr lestinni. Þá er gott að vera með hliðarafurð eins og vatnið /SS.