Beint í efni

Málþing: Ungt fólk og landbúnaður

13.10.2009

Föstudaginn 23. október verður málþing haldið í Dalabúð í Búðardal með yfirskriftinni Ungt fólk og landbúnaður og í framhaldi verður stofnfundur samtaka ungra bænda. Viljum við hvetja sem flesta til að mæta, bændur sem og annað fólk sem hefur áhuga á málefnum landbúnaðar og hinna dreifðu byggða landsins. Enn fremur viljum við vekja athygli á því að allt ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára getur orðið aðilar að samtökunum, ekki er skilyrði að vera starfandi bóndi, einungis að hafa áhuga á málefnum landbúnaðar og landsbyggðarinnar.

Dagskráin á föstudeginum hefst kl. 13:00 og er svo hljóðandi:

  • Forseti Íslands Herra Ólafur Ragnar Grímsson setur málþingið Ungt fólk og Landbúnaður
  • Tækifæri í sjálfbærri matvælaframleiðslu á Íslandi – Kristín Vala Ragnarsdóttir forstöðumaður Umhverfis- og verkfræðideildar Háskóla Íslands
  • Ungir bændur á Íslandi – Þeirra eru tækifærin – Ingibjörg Sigurðardóttir Háskólinn á Hólum
  • Frá átaki til árangurs – Baldvin Jónsson verkefnisstjóri hjá Áform
  • Hvers vegna er spennandi að vera ungur bóndi – Haraldur Bendiktsson

    Klukkan 16:30 hefst svo stofnfundur Samtaka ungra bænda.

    Fundarstjóri verður Ásmundur Einar Daðason alþingismaður

Samfara málþinginu og stofnfundinum mun Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) halda hinn árlega haustfagnað sauðfjárbænda í Dalasýslu með tilheyrandi gleði og glensi þar sem má ganga að því vísu að Dalamenn fari á kostum líkt og vant er (sjá glæsilega dagskrá nánar á dalir.is).

Á laugardeginum verður staðið í fyrsta sinn fyrir keppninni Ungi bóndi ársins, fer hún fram í reiðhöllinni í Búðardal ásamt fjölmörgum öðrum viðburðum helgarinnar. Sérlegir ráðgjafar og hönnuðir keppninnar eru ekki af verri endanum, þann hóp skipa þeir Unnsteinn Snorri Snorrason, landsráðunautur í bútækni, Óðinn Gíslason, athafnamaður að Syðstu-Fossum, og síðast en ekki síst Guðmundur Hallgrímsson, sveitafitness sérfræðingur. Skorum við á sem flesta að skrá sig til keppni á netfangið margret@bssl.is.

Hægt er að panta gistingu á góðu verði á hótelinu að Laugum í Sælingsdal í S:434-1600/8612660.