Málaskrá ríkisstjórnarinnar á nýhöfnu þingi
05.10.2009
Eitt af fylgiskjölum sem voru lögð fram með stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld, var málaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir komandi vetur. Hún hefur að geyma 184 mál sem áætlað er að leggja fram á haust- og vorþingi.
Þau mál sem snerta landbúnaðinn beint eru m.a. eftirfarandi:
Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og
ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.
23. október 2007 heimilaði ríkisstjórnin staðfestingu á sex ákvörðunum sameiginlegu EES nefndarinnar sem fela í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn.
Efnislega var um að ræða endurskoðun á undanþágu Íslands frá I. kafla í viðauka I við
EES-samninginn og upptöku löggjafar Evrópusambandsins um matvæli og fóður inn í EES-samninginn. (Haust.) Þetta frumvarp er í daglegu tali kallað matvælafrumvarpið.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum
nr. 99/1993.
Lagðar verða til breytingar á ákvæðum laganna er varða markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks og ákvæði um álagningu dagsekta verða skýrð og einfölduð. Jafnframt er til skoðunar að leggja til breytingar er heimili kjötframleiðendum að standa saman að útflutningi þegar markaðsaðstæður knýja á um slíka ráðstöfun. (Haust.)
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra.
Lagt verður fram frumvarp er heimilar innflutning á frosnu svínasæði í því skyni að
auðvelda kynbótastarf í svínarækt. (Haust.)
Frumvarp til laga um breytingar á jarðalögum og ábúðarlögum.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er tiltekið að hún muni standa vörð um innlendan
landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Jarða- og ábúðarmál eru nátengd yfirlýstum markmiðum um fæðuöryggi þjóðarinnar. Meginstefnan hlýtur að felast í að halda utan um og vernda núverandi og framtíðarlandnæði sem til matvælaframleiðslu er fallið og skapa jafnframt sem best skilyrði í hinum dreifðu byggðum til margvíslegrar starfsemi sem leiði til öflugs og samkeppnishæfs landbúnaðar.
(Vor.)
Málaskrána má sjá í heild sinni hér.