Maís aldrei verið dýrari á heimsmarkaðinum!
06.04.2011
Í byrjun vikunnar var verð á maís á markaðinum í Chicago í hæstu hæðum og hefur aldrei áður verið jafn hátt eða 7,70 dollarar á hverja 3/4 fötu sem er bandarísk mælieining fyrir þurrvikt (1 fata (Bushel) = 36,4 lítrar). Hæsta verð til þessa náðist árið 2008 þegar verðið fór í 7,65 dollara. Í íslenskum krónum jafngildir verðið á markaðinum nú 34.460 krónum á tonnið og hefur verðið á maís nú hækkað um heil 120% á 52 vikum á markaðinum í Chicago.
Ástæða þess að verðið er jafnt hátt og raun ber vitni um felst m.a. í lágri byrgðastöðu á maís í Bandaríkjunum, en birgðirnar hafa ekki verið minni þar í landi í 15 ár. Þá hefur ótryggt ástand heimsmála þessi áhrif einnig.
Margir telja að markaðsástandið nú um stundir sé afar viðkvæmt og heimsmarkaðsverð á korni, þ.e. maís, byggi og hveiti, geti hæglega hækkað enn meira sé útlit fyrir uppskerubrest. Nú þegar liggur fyrir að Rússland hefur framlengt banni á útflutningi svo að sú ákvörðun mun klárlega ekki hafa áhrif til lækkunar á heimsmarkaðinum. Þá er von á skýrslu frá bandarísku matvælastofnuninni (USDA) á föstudag þar sem kynnt verður mat stofnunarinnar á ætlaðri byrgðastöðu landsins í ágúst nk., þegar uppskera ársins liggur fyrir. Fari svo að matið verði lágt má búast við enn frekari hækkun.
Dagljóst er að allar þær hækkanir á korni sem hafa orðið á undanförum mánuðum geta ekki leitt til annars en hækkaðs verðs matvæla. Uppþotin í Mið-Austurlöndum nú um stundir eru m.a. rakin til verulega hækkaðs verðs matvæla svo ljóst er að staðan er afar viðkvæm. Áhrifin hér á landi eru jafn ljós, afurðaverð þarf að hækka til þess að mæta verulega hækkuðum framleiðslukostnaði vegna þessa. /SS