Magnús B. Jónsson hlýtur heiðursviðurkenningu LK 2013
22.03.2013
Magnús B. Jónsson hlýtur heiðursviðurkenningu Landssambands kúabænda 2013. Magnús er bændum landsins að góðu kunnur enda starfað í þágu bænda í áratugi sem bæði skólastjóri á Hvanneyri og sem ráðunautur.
Magnús lauk prófi úr Framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri vorið 1963 og í kjölfarið réðst hann til starfa hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Sumarið 1964 hélt hann til Noregs í framhaldsnám og kom svo til baka árið 1970 og hóf þá þegar störf á ný hjá Búnaðarsambandi Suðurlands.
Magnús var ráðinn skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri árið 1972 og gegndi því starfi til ársins 1984, og tók þá að sinna fagi sínu á ný, bæði nautgriparæktinni en einnig loðdýraræktinni. Árið 1992 tók hann aftur við skólastjórn og varð síðan rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri frá árinu 2000. Því starfi gengdi hann til ársloka 2004.
Eftir það kastað hann sér á fullu í málefni nautgriparæktarinnar sem Landsráðunautur Bændasamtaka Íslands og því starfi gegndi hann fram á síðasta ár er hann lét af störfum/SS.