Magnaður árangur sameiginlegs ræktunarstarfs
24.08.2010
Kúabændur í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi hafa ástæðu til að gleðjast yfir góðu gengi ræktunarstarfsins um þessar mundir, en sameiginlega ræktunarfyrirtæki þeirra, Viking genetics, er nú þegar farið að skila yfirburða nautum á heimsvísu. Sérlega eftirtektarverður er árangur Holstein nautanna en á topp tíu listanum í Bandaríkjunum eru nú fimm naut frá Viking genetics. Ef horft er til sk. NM$ 600+ nauta þá eru 28 naut á þeim vinsæla lista og alls átta frá Viking genetics og er ekkert annað ræktunarsamband í heiminum með jafn mörg
afburða Holstein naut á listanum.
Viking genetics hefur einnig náð afar áhugaverðum árangri í Kanada, en þar koma fjögur efstu rauðu nautin á LPI listanum frá fyrirtækinu. Frægasta rauða nautið heitir Peterslund en hann á bæði alsystur sem eru afburða kýr en einnig eru dætur hans einstakar. Við síðasta kynbótamat í Kanada komu dætur undan Peterslund í þriðja, fimmta, sjöunda og fjórtánda sæti yfir landið.