Magn broddmjólkur miðist við fæðingarþunga
14.11.2014
Nýverið birtist í tímaritinu Journal of Dairy Science niðurstöður afar áhugaverðrar rannsóknar á getu kálfa til þess að nýta mótefnin sem þeir fá með broddmjólkinni. Löngum hefur verið þekkt að því fyrr sem kálfurinn fær broddmjólkina, og það af góðum gæðum, því meira magn mótefna mælist í blóði kálfsins. Það sem þessi rannsókn tók til var að skoða hvaða áhrif magn broddmjólkurinnar hefur. Rannsóknin var unnin í Írlandi, við Teagasc rannsóknastöðina, og kom í ljós að þeir kálfar sem fá broddmjólkurmagn sem nemur 8,5% af líkamsþunga ná að nýta mótefni mjólkurinnar best.
Rannsóknin fór þannig fram að 99 nýfæddum kálfum var skipt upp í þrjá hópa sem fengu mismunandi mikið magn broddmjólkur innan við tvo klukkutíma frá fæðingu, allt eftir líkamsþunga þeirra. Einn hópurinn fékk broddmjólkurmagn miðað við 7% líkamsþunga, annar miðað við 8,5% og sá síðasti miðað við 10% þungans. Meðalþungi kálfanna var 36 kíló en kálfarnir voru af Holstein kyni, blöndu af Holstein og Jersey eða blöndu af Holstein og NRF (norskum rauðum). Sem fyrr segir voru kálfarnir sem fengu broddmjólkurmagn miðað við 8,5% líkamsþungans þeir sem nýttu mótefnin best og náði meltingarvegurinn að draga til sín 38% þess mótefnamagns sem var í broddmjólkinni, en mælt var IgG (Immunoglobulin G) í mjólkinni og svo í blóði kálfanna. Hinir hóparnir náðu annars vegar 26% og hins vegar 29%.
Þess má geta að í nýlegu BSc verkefni frá Landbúnaðarháskólanum kom fram að meðal fæðingarþungi 22ja íslenskra kálfa var 33,6 kg en þunginn all breytilegur eða frá 24-41,5 kg. Miðað við þessar tölur, og forsendur úr hinni írsku rannsókn, ættu kálfarnir að fá að jafnaði 2,9 kg innan tveggja tíma frá fæðingu en vegna breytilegs fæðingarþunga allt frá 2 kg og upp í 3,5 kg/SS.