Mæla frumutöluna með iPhone
09.10.2013
Á hverjum degi bætast við nýjungar á tæknisviðinu innan nautgriparæktarinnar og er sérstaklega mikil þróun innan allskonar tölvubúnaðar. Nú geta bændur sem eiga iPhone t.d. keypt sér frumugreini fyrir símann! Tæki þetta, sem kostar 1.999 dollara í vefverslun (um 240 þúsund íkr) greinir mjólkursýnið á staðnum og telur frumurnar með áþekkri tækni og gert er á rannsóknastofu svo bið eftir niðurstöðum þaðan verður brátt óþörf.
Hvert sýni er dregið upp í þar til gerðar umbúðir og inn í sýnið sprautað hvata sem svo gerir það að verkum að tækið, í samvinnu við hugbúnað símans, getur talið frumurnar og birtir niðurstöðuna á skjánum um leið. Hver svona prufa kostar um 450 íkr (3,75 dollara) í dag. Samhliða talningunni birtast á skjánum ráðleggingar og einskonar áhættumat á því hvort um júgurbólgu sé að ræða. Hafi einhver áhuga að að kynna sér málið nánar má benda á heimasíðu fyrirtækisins Dairy Quality Inc en fyrirtækið er með vefverslun: www.dairyquality.com/SS.