Beint í efni

Lýsa frá Stakkhamri heldur fyrsta sæti eins og Hraunháls

12.05.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir apríl 2011 eru nú komnar út hjá Bændasamtökunum. Alls komu 603 bú til uppgjörs sem eru hlutfallsleg skil upp á 94%, en 605 bú voru með í mánuðinum þar á undan. Fjöldi árskúa í þessum skýrsluskilum var 22.924 eða 37,0 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa. Í mars sl. var meðalfjöldinn sá sami.

 

Þegar horft er til meðalafurðanna kemur fram að meðalafurðirnar halda áfram að hækka eða úr 5.328 kg í mars í 5.343 kg. Próteinhlutfallið var 3,35 og fituhlutfallið 4,20 og framleiðsla verðmætaefna því 403,4 kg. Sé horft til sambærilegra niðurstaðna í apríl í fyrra voru meðalafurðirnar þá 5.216 kg, próteinhlutfallið 3,40 og fituhlutfallið 4,20 og framleiðsla verðmætaefna því 396,4 kg. Afurðirnar eru því að aukast frá því fyrir 12 mánuðum um 2,4% (jukust um 4,8% frá mars 2010 – mars 2011), sem er mjög ánægjulegt. Framleiðsla verðmætaefna nær ekki að fylgja magninu eftir og nemur aukningin þar 1,8% enda próteininnihald mjólkurinnar í fyrra meira samkvæmt skýrsluhaldsniðurstöðum.

 

Samtals reiknast nú 15 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er fækkun um tvö bú frá því í mars.

 

– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru sem fyrr á Hraunhálsi (26,7 árskýr) en þar var meðalnytin 7.876 kg með 4,93% fitu og 3,38% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 654 kg, sem er 3 kg hækkun frá því í mars.

 

– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru sem fyrr í Kirkjulæk 2 (42,3 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.711 kg með 4,11% fitu og 3,48% prótein. Magn verðmætaefnanna í Kirkjulæk 2 eru því að jafnaði 585 kg, sem er lækkun um 2 kg. frá því í mars.

 

– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (102,0 árskýr), en þar var meðalnytin 7.691 kg með 4,05% fitu og 3,43% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 575 kg., sem er 1 kg lækkun frá því í mars.

 

Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) heldur efsta sæti frá því í mars en það er kýrin Lýsa (undan Frísk) frá Stakkhamri 2 með 11.790 kg sl. 12 mánuði með 3,56% próteini og 4,35% fitu og verðmætaefnin því alls 932 kg. Í mars var Lýsa einnig hæst yfir landið en náði þá yfir 12 tonn í meðalafurðir 12 mánuðina þar á undan. Athyglisvert er að sjá að af 10 afurðahæstu kúm landsins eru fimm þeirra frá sama búinu, Gunnbjarnarholti sem bendir til geysilega jafnfra afurða þar á bæ.

 

Fram kemur í yfirliti BÍ að 4 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg og engin reiknast nú yfir yfir 12 þúsund kg. /SS

 

Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.