Beint í efni

Lýsa frá Stakkhamri er mikill kostagripur!

21.05.2011

12. maí sl. sögðum við frá því hér á naut.is að afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) hafði haldið efsta sæti frá því í mars en það var kýrin Lýsa (undan Frísk) frá Stakkhamri. Afurðir Lýsu voru 11.790 kg sl. 12 mánuði með 3,56% próteini og 4,35% fitu og verðmætaefnin því alls 932 kg. Í mars var Lýsa einnig hæst yfir landið en náði þá yfir 12 tonn í meðalafurðir 12 mánuðina þar á undan.

 

Þessi frétt, sem byggði á upplýsingum um niðurstöður skýrsluhaldsins frá því í apríl, vakti töluverða athygli og var fréttin um Lýsu með vinsælustu fréttum á tímabili á helstu netfréttaveitum landsins. Því þótti upplagt að fræðast nánar um þessa, nú þjóðþekktu, kú og fyrir svörum urðu ábúendur á Stakkhamri þau Laufey Bjarnadóttir og Þröstur Aðalbjarnason.

 

Á bænum var farið í endurnýjun aðstöðu árið 2006 og hluti  fjóssins var tekinn í notkun í desember 2006 og fjósið í heild sinni árið 2007. Fjósið er með 50 legubásum og tveimur sjúkrastíum með hálmi. Borinn er saxaður hálmur í legubása tvisvar á dag. Í fjósinu er heilfóðurkerfi frá Pellon og Kuhn, þ.e. traktorsdrifinn mixari frá Kuhn og síðan tvö sk. forðabúr, mixari/gjafari og færibönd frá Pellon sem keyra fóðrið sjálfkrafa inn yfir fóðurgang og sjá um að gefa kúnum.

 

Aðspurð um Lýsu sögðu þau hana reyndar hafa svindlað eilítið á þessu mjaltaskeiði, þar sem hún fór aldrei í geldstöðu. „Þegar við höfðum hugsað okkur að fara að gelda hana stálmaði júgrað og hún bjó sig til og lét tveimur kálfum 6. desember en hún átti tal 27. febrúar 2011. Nytin minnkaði aðeins fyrst en jókst svo aftur þegar frá leið burði, nú hefur hún minnkað aftur og er komin niður í um 20 kg. á dag. Hún á svo tal 8. desember nk. en það er svo spurning um það hvort hún eigi þá nokkuð fleiri kálfa“, segja þau í stuttu viðtali við naut.is.

 

Lýsa er fædd þann 12. febrúar 2004 og er undan Lóu 102 (f. Lóu var Tónn 88006).  Lóa var hinsvegar fædd 27. desember 1998 og var fargað 22. september 2005 og átti hún 5 kálfa (þar af 2 lifandi kvígur). Lóa var ágætiskýr, fallega ljósrauð.

 

„Lýsa er sterkur gripur, stór og bolmikill. Hún fékk 88 stig þegar Jón Viðar Jónmundsson, þáverandi landsráðunautur í nautgriparækt, byggingadæmdi hana sem 1. kálfs kvígu og fékk hún þann dóm að vera besti gripurinn í þeim hópi sem dæmdur var í fjósinu það vorið. Segja má að það mat hafi gengið vel eftir, enda er Lýsa sú eina sem eftir stendur í fjósinu úr þeim hópi sem þá var dæmdur. Hún skaraði ekki fram úr sem fyrsta kálfs kvíga enda var þetta öflugur kvíguhópur en þegar við skoðum línulega matið á henni sem kvígu, þá fær hún góða einkunn fyrir júgurfestu, júgurband, og júgurdýpt. Sú einkunn á henni sem kvígu hefur gefið tóninn fyrir framtíðina, enda er júgrið í góðu standi enn í dag“.

 

Að sögn Laufeyjar og Þrastar hefur Lýsa fengið júgurbólgu, enda hafi nánast hver einasta kýr fengið júgurbólgu þegar nýr mjaltabás var tekin í notkun á sínum tíma. Skýringin á því fólst í minni afköstum mjaltabássins á sínum tíma, en básinn var í raun ekki vel starfhæfur vegna afkastaleysis. Að öðru leiti hefur Lýsa verið mjög heilsuhraust.

 

Lýsa bar sínum fyrsta kálfi 27. desember 2005 og 6. burður hennar var núna 6. desember þegar hún lét tveim kálfum (nauti og kvígu). Hún hefur einungis átt eina kvígu sem mun bera sínum fyrsta kálfi núna næsta vetur. Eitt af nautunum undan Lýsu fór á Nautastöð BÍ en það var naut undan Síríusi sem fætt var 31. mars 2010 /SS.