Beint í efni

Lýsa frá Stakkhamri afurðahæsta kýrin, Hraunháls afurðahæsta búið

12.04.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir mars 2011 eru nú komnar út hjá Bændasamtökunum. Alls komu 605 bú til uppgjörs sem eru hlutfallsleg skil upp á 93%. Fjöldi árskúa í þessum skýrsluskilum var 22.901 eða 37,0 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa. Í febrúar sl. var meðalfjöldinn heldur hærri eða 37,2 árskýr/skýrsluhaldshafa.

 

Þegar horft er til meðalafurðanna kemur niðurstaðan þægilega á óvart miðað við fyrri mánuði og hækkar verulega frá febrúar eða úr 5.295 kg í 5.328 kg. Próteinhlutfallið var 3,35 og fituhlutfallið 4,21. Sé horft til sambærilegra niðurstaðna í mars í fyrra voru meðalafurðirnar þá 5.082 kg, próteinhlutfallið 3,40 og fituhlutfallið 4,20. Afurðirnar eru því að aukast frá því fyrir 12 mánuðum um 4,8%, sem er mjög ánægjulegt, en framleiðsla verðmætaefna nær ekki að fylgja magninu eftir og nemur aukningin þar 4,3% og munar vissulega um próteinhlutfallslækkunina.

 

Samtals reiknast nú 17 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er aukning um eitt bú frá því í febrúar.

 

– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru sem fyrr á Hraunhálsi (26,6 árskýr) en þar var meðalnytin 7.865 kg með 4,90% fitu og 3,38% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 651 kg, sem er 3 kg lækkun frá því í febrúar.

 

– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru sem fyrr í Kirkjulæk 2 (42,7 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.708 kg með 4,13% fitu og 3,49% prótein og magn verðmætaefnanna því að jafnaði 587 kg, sem er aukning um 3 kg. frá því í febrúar.

 

– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (102,9 árskýr), en þar var meðalnytin 7.712 kg með 4,04% fitu og 3,43% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 576 kg., sem er 3 kg lækkun frá því í febrúar.

 

Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) er nú ný í efsta sæti en það var kýrin Lýsa (undan Frísk) frá Stakkhamri 2 með 12.424 kg með 3,46% próteini og 4,32% fitu og verðmætaefnin því alls 967 kg. Í febrúar var Rót frá Syðri-Bægisá afurðahæst með 12.889 kg en lækkar um rúm 700 kg. á milli mánaða en heldur þó öðru sæti á landsvísu!

 

Fram kemur í yfirliti BÍ að 6 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg, þar af tvær yfir 12 þúsund kg. /SS

 

Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.