Lykilaðföng hafa hækkað um 1,2 milljónir!
11.05.2011
Ýtarlegar umræður um verðlags- og afkomumál kúabænda áttu sér stað á stjórnarfundi LK í síðustu viku en gríðarlegar hækkanir aðfanga hellast þessa dagana yfir kúabændur. Nú í þessum mánuði hafa tveir stærstu fóðursalarnir tilkynnt hækkanir á kjarnfóðri sem liggja á bilinu 4-8%. Á síðustu 12 mánuðum hefur kjarnfóðurverð hækkað um ríflega 25%. Í rekstri á meðal kúabúi þýðir það kostnaðarhækkun upp á rúmar 700.000 kr á ársgrunni. Þá hefur vélaolía hækkað um 20% á sama tímabili, fyrir meðalbúið þýðir það 150.000 kr í aukinn kostnað á ári. Þá hækkaði áburður um 12-14% milli ára; 350.000 kr þar. Samtals hafa þessir grundvallaraðföng því hækkað um 1,2 milljónir á sl. ári eða um 100 þús. kr. í mánuði hverjum. Fyrir meðalbúið nema þessar kostnaðarhækkanir um 6 kr á framleiddan mjólkurlíter, er þá ótalin hækkun á sáðvöru og rúlluplasti, þjónustu, launatengdra gjalda o.fl. Á móti þessu kemur hækkun á mjólkurverði upp á 3,25 kr/ltr þann 1. febrúar sl. Jafnframt er ljóst að umtalsverð breyting hefur átt sér stað á kostnaðarsamsetningu kúabúanna á undanförnum árum. Í ljósi þessa er mikilvægt að verðlagsgrundvöllur kúabús verði endurskoðaður með tilliti til þess, í samræmi við ályktun aðalfundar LK 2011. Í síðustu viku tókst að ná saman kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, sem fela í sér umtalsverðar kjarabætur til þeirra sem í hlut eiga. Eðlilegt má telja að slíkar kjarabætur nái einnig til kúabænda.
Í ljósi alls þessa er afar brýnt að sem fyrst náist fram leiðrétting á mjólkurverði vegna breytilegu kostnaðarliðanna sem að framan greinir og launaliður verði leiðréttur í kjölfar kjarasamninganna.