Lyfjanotkun í danskri mjólkurframleiðslu snarminnkar
11.04.2013
Þrátt fyrir að í Danmörku hafi nú verið í gildi nýjar reglur í nokkurn tíma, þar sem kúabændur geta sjálfir meðhöndlað kýr sýnar með lyfjum, þá hefur lyfjanotkunin snarminnkað á sama tíma. Þrátt fyrir að fjöldi kúa hafi aukist á milli ára þá dróst lyfjanotkunin í nautgriparæktinni saman annað árið í röð og að þessu sinni um 6% miðað við árið á undan, sýnir nýtt uppgjör frá Þekkingarsetri landbúnaðarins.
Skýringin felst fyrst og fremst í breyttum áherslum, en í dag eru flestir kúabændur með öll helstu lyf og meðhöndla sjúkdómana sjálfir, en á móti ber þeim að fá ráðgjöf frá dýralæknum með reglubundnum hætti. Margir dýralæknar starfa því núorðið meira við ráðgjöf en við sjúkdómameðhöndlunina sjálfa og hefur þetta danska kerfi reynst einstaklega vel.
Líkt og hér á landi er mest notkun lyfja vegna júgurbólgu, en í Danmörku hefur ráðgjöfin beinst að því að geldstöðumeðhöndla kýr sem hafa átt við júgurbólguvanda. Þessar áherslur hafa skilað verulegum árangri á einungis tveimur árum og sem dæmi má nefna að árið 2012 voru 7% færri kýr meðhöndlaðar við júgurbólgu en árið 2011. Veruleg aukning varð hinsvegar á geldstöðumeðhöndlun sem aftur skilaði sér í stórbættu júgurheilbrigði á landsvísu/SS.