Beint í efni

Lýðheilsa er leiðarstef matvælastefnu Íslands

09.02.2019

Matvælaframleiðslu fylgir ábyrgð og sú ábyrgð nær allt frá bónda til afhendingar á vöru til neytenda. Bændur, dýralæknar, afurðastöðvar, verslanir, veitingahús og ekki síst eftirlitsiðnaðurinn eru allt þátttakendur í því að tryggja heilnæmi vörunnar og að framleiðsluhættir séu eftir lögum og reglum. Því miður berast reglulega fregnir af því að einhvers staðar í ferlinu sé pottur brotinn. Nýlegasta dæmið um það eru fregnir af ólöglegri slátrun sjúkra kúa í Póllandi og dreifingu á því kjöti áfram til 13 Evrópulanda. Í því tilviki var velferð dýranna að engu höfð, litið fram hjá reglum um slátrun og að lokum var kjötið vottað af óábyrgum eftirlitsaðilum um að reglum hafi verið fylgt og kjötið væri öruggt, daginn eftir þennan óskapnað! Verið er að vinna í afturköllun á umræddu kjöti, en ekki hefur verið hægt að fullyrða að það hafi ekki ratað út á markað og alla leið til neytenda.

Strangari reglur á Íslandi
Á Íslandi erum við í mörgum tilfellum með strangari reglur í matvælaframleiðslu en gengur og gerist annars staðar. Þegar kemur t.d. að salmonellu og kampýlóbakter er reglan sú hér á landi að vöktun og varnir eru framar í framleiðslukeðjunni, betur er fylgst með uppeldi kjúklinga á búunum sjálfum og harðari viðbrögð við uppkomu smits en reglur ESB gera ráð fyrir. Hér er allt kjöt fryst ef upp kemur smit í eldishópi, en frystingin drepur um 90% af bakteríunni. Vegna þessa hefur Ísland náð algerri sérstöðu þegar kemur að kampýlóbaktersmitum, á meðan það er hreinlega ekki talið „efnahagslega gerlegt“ að fara þessa leið innan ESB þrátt fyrir að kostnaðurinn fyrir heilbrigðiskerfið og vinnutapi vegna sýkinga fólks sé metinn á 2,4 milljarða evra á hverju ári (EFSA)! Nei, viðskiptalegir hagsmunir eru metnir mikilvægari en lýðheilsa manna.

Frystiskyldan eykur matvælaöryggi
Sérstaða matvælaöryggis okkar hér á landi liggur á fleiri stöðum og má þar nefna svokallaða frystiskyldu. Hún gengur út á það að að allt hrátt kjöt sem flutt er inn til Íslands þarf að vera í frysti í minnst 30 daga áður en það kemur til landsins. Ástæðan er tvíþætt; annars vegar til að vernda heilbrigði búfjárstofna landsins og hins vegar til að vernda lýðheilsu manna. Frystiskyldan snýr því ekki að því að koma í veg fyrir að ákveðin matvæli komi til landsins, hún snýst um að meðhöndlun þessara matvæla sé með þeim hætti að fyllsta öryggis sé gætt. Einhverjir hugsa eflaust að áhættan sé svo lítil, farfuglar og ferðamenn séu jafn hættulegir og hráa kjötið og því skipti þetta engu máli, sé óþarft. Þá er ágætt að staldra við og skoða þekkt dæmi hérlendis og erlendis.

Sjúkdómastaða íslenskra búfjárstofna er óvenjuleg miðað við það sem þekkist erlendis frá. Stofnarnir okkar hafa verið meira og minna einangraðir frá landnámi og eru fyrir vikið mun viðkvæmari en ella fyrir óþekktum smitum. Á Íslandi eru þrjú þekkt tilfelli af smitsjúkdómum sem borist hafa til landsins með dýraafurðum: Miltisbrandur, klassísk svínapest og blöðruþot, síðasta dæmið frá 1953.

Erlendis frá heyrum við hins vegar af mýmörgum dæmum, það nýjasta er afríska svínapestin sem hefur herjað á Asíu og er nú að breiðast vestur eftir Evrópu, er bráðdrepandi fyrir svínin og dreifist bæði með villisvínum og alisvínum. Upphafssmitin eru rakin til þess að svínum voru gefnir matarafgangar af veitingastöðum. Varnir Íslands gagnvart þessum skæða sjúkdómi er bæði lega landsins og kröfur við innflutning á kjöti en líklegasta mögulega smitleiðin í íslensk svín væri ef flutt væri inn smitað kjöt sem kæmist í snertingu við svín.

Að hafa vaðið fyrir neðan sig
Bæði í tilfelli afrísku svínapestarinnar, sem gæti haft óafturkræf áhrif á svínastofn landsins bærist hún hingað, og pólska kjötsins, sem hefur verið úrskurðað hættulegt fólki, er frystiskyldan að veita okkur ómetanlega vörn sem felst í þeim tímaramma sem kjötið þarf að vera í frysti áður en það kemur til okkar. Ef afríska svínapestin kemur upp á búi tekur það nokkra daga að uppgötvast og því er hægt að innkalla kjötið áður en það leggur af stað til Íslands. Í pólska kjötmálinu hefði slíkt hið sama verið hægt að gera hefði eitthvað af því verið selt til íslenskra byrgja. Sömu sögu er ekki hægt að segja um Finna sem því miður hafa ekki getað tryggt að kjötið hafi ekki farið á markað og Svíar hafa nú gefið út að talið er að allt að hundrað kíló af kjötinu hafi nú þegar verið borðuð þar í landi.

Gæði umfram lægsta verð
Í gær, föstudag, var matvælastefna á dagskrá ríkisstjórnarfundar og var haft eftir forsætisráðherra fyrr í vikunni að hún vonist til að í lok árs verði komin sýn á málið sem teygir sig yfir alla geira samfélagsins. Þessu skrefi ber að fagna og þá sérstaklega þeirri sýn forsætisráðherra að fá fleiri að borðinu, þar með talið heilbrigðisráðherra. Það er mín einlæga skoðun að lýðheilsa eigi að vera leiðarstefið í matvælastefnu Íslands. Hér á landi er stundaður heilnæmur landbúnaður þar sem stofnarnir okkar eru heilbrigðir og tíðni sjúkdóma er einungis sýnishorn af því sem þekkist víða annars staðar. Sérstaða okkar í fátíðni matarsýkinga er einnig til fyrirmyndar og ég hef enn ekki minnst einu orði á yfirburðarstöðu okkar varðandi lága tíðni sýklalyfjaónæmra baktería. Sýklalyfjanotkun er með lægsta móti á Íslandi og við búum við þann lúxus að ganga að hreinu vatni gefnu.

Stefna stjórnvalda -og þar af leiðandi okkar sem sem þjóðar- á auðvitað að vera sú að halda þeirri stöðu, leggja áherslu á gæði umfram lægsta mögulega verð. Því þegar á stóru myndina er horft er það hagkvæmara, heilsusamlegra og einfaldlega skynsamlegra en nokkuð annað. Þetta er nokkuð einfalt: Við erum það sem við borðum.

Í febrúar 2019

Margrét Gísladóttir
Framkvæmdastjóri LK