Beint í efni

Loks hækkaði heimsmarkaðsverðið

20.08.2015

Eftir stöðuga lækkun mjólkurafurða á uppboðsmarkaðinum GDT (Global Dairy Trade) frá því í mars mánuði hækkaði verðið á markaðinum í fyrradag um 14,8% í einu stökki! Þetta eru vissulega betri tíðindi en hingað til hafa borist frá heimsmarkaðinum í ár en afurðaverðið er þó enn langt frá því að vera í nokkru samræmi við framleiðslukostnaðinn. Það sem er nokkuð óvenjulegt við heimsmarkaðinn núna er hve stór stökk verða með heimsmarkaðsverðið í hverjum viðskiptum. Frá því í byrjun júlí hafði verðið fyrst hrapað um sex prósent, þá ellefu prósent og svo níuprósent þar til það stökk nú upp um framangreind 14,8%.

 

Gengi svokallaðs heimsmarkaðsverðsstuðuls stendur nú í 590 sem er mjög lágt í sögulegu samhengi fyrir heimsviðskipti mjólkurvara. Þá má geta þess að á markaðinum í fyrradag var verslað með 36.700 tonn, sem er heldur minna en var á síðasta uppboðsmarkaði þegar viðskiptin hljóðuðu upp á 48.500 tonn. Venjulega er meira boðið fram til kaups og sölu á þessum tíma en etv. hefur lágt heimsmarkaðsverð haldið aftur af söluaðilum/SS.