Beint í efni

Lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum

14.05.2010

Síðastliðinn þriðjudag, 11. maí, voru samþykkt á Alþingi lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Hafa þau þegar tekið gildi. Í lögunum segir að þau gildi um atvinnurekendur og starfsmenn þeirra, sem reka starfsemi á innlendum vinnumarkaði. Samtök aðila vinnumarkaðarins skulu semja nánar um það í kjarasamningum sín á milli til hvaða atvinnugreina og starfa innan þeirra lögin taka á hverjum tíma. Þessum aðilum er því verið að færa beint lagasetningarvald.  

Atvinnurekendum og starfsmönnum þeirra er skylt að hafa vinnustaðaskírteini á sér við störf sín, eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðar er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir í fyrirtæki, til að ganga úr skugga um að farið sé eftir kjarasamningum og skulu tilkynna um brot til Vinnumálastofnunar. Dagsektir vegna brota á lögunum geta orðið allt að 100.000 kr.

 

Það vekur talsverða athygli að sjá að samtök bænda eru ekki á lista félags- og tryggingamálanefndar Alþingis yfir umsagnarbeiðnir um málið. Það er merkilegt í ljósi þess, að bændur, sem sjálfstæðir atvinnurekendur, og starfsmenn þeirra munu hugsanlega þurfa að bera vinnustaðaskírteini framvegis við vinnu sína og falla að öðru leyti undir löggjöf þessa. Þeir munu líka þurfa að bera þann kostnað sem af setningu laganna mun hljótast.

 

Bændasamtök Íslands og Starfsgreinasambandið, stærsta aðildarfélag Alþýðusambands Íslands, gera samning sín á milli um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Hvað framangreint mál varðar, þykir Alþingi eðlilegt að einungis öðrum samningsaðilanum sé gefinn kostur á því að segja álit sitt á framangreindu frumvarpi. Slík vinnubrögð geta vart talist til fyrirmyndar.

 

Umræða um málið á Alþingi – fyrsta, önnur og þriðja – tók samtals 72 mínútur.