Beint í efni

Lög samþykkt er snerta starfsskilyrði landbúnaðarins

21.06.2023

Lög samþykkt á 153. löggjafarþingi Alþingis (2022-2023) er snerta starfsskilyrði landbúnaðarins

Þá er enn einu löggjafarþingi okkar Íslendinga lokið og fjölmiðlar hafa síðustu misseri flutt fréttir af annars snörpum þinglokum þar sem fá mál voru afgreidd þrátt fyrir að á þriðja tug þingmála og lagafrumvarpa hafi verið  á dagskrá við þinglok. Fyrirferðamestu málin sem voru afgreidd voru breytingar á virðisaukaskatti og fjármálaáætlun 2024-2028. Þó voru nokkur mál samþykkt á liðnu þingi sem snerta starfsskilyrði landbúnaðarins.

Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023, nr. 129/2022

Með lögunum var lögð til ný gjaldtaka á umbúðir úr málmi 25 kr./kg.  og umbúðir gerðum úr viði 10 kr./kg. auk þess sem lögð var til tvöföldun og hátt í þreföldun á úrvinnslugjaldi á umbúðir úr pappa og plasti. Þannig fór úrvinnslugjald á pappaumbúðir úr 22 kr./kg. í 42 kr./kg. og úrvinnslugjald á plastumbúðir fór úr 30 kr./kg. í 82 kr./kg. Hér er um að ræða aðföng sem að stórum hluta eru notuð í innlendri matvælaframleiðslu og því hafa umræddar hækkanir umtalsverð áhrif á framleiðslukostnað búvara hér á landi.

Einnig var samþykkt hækkun á úrvinnslugjaldi á heyrúlluplasti úr 30 kr./kg. í 82. kr./kg. en ólíklegt verður að telja að birgjar geti tekið slíka hækkun af framlegð vörunnar til að halda útsöluverði heyrúlluplasts til bænda óbreyttu. Færist öll hækkunin á útsöluverð má gera ráð fyrir að, sem dæmi, meðal kúabú þurfi að greiða á bilinu 150-200.000 kr. meira fyrir heyrúlluplast vegna fóðuröflunar á árinu 2023.

Sjá má lögin hér.

Lög um breytingu á ýmsum lögum er varða opinbert eftirlit Matvælastofnunar (samræming gjaldtökuheimilda)

Um er að ræða breytingu á ýmsum lögum er geyma ákvæði um opinbert eftirlit MAST. Allar breytingarnar varða nánari útlistun á gjaldtökuheimild MAST fyrir eftirlitið sem þau sinna. Breytingin heimilaði einnig innheimtu hærri eftirlitsgjalda.

Í greinargerð með frumvarpinu sem síðar varð að lögum, kemur fram að stofnunin hafi verið rekin með halla. Í ársreikningi stofnunarinnar fyrir árið 2021 má hins vegar sjá að stofnunin var þvert á móti rekin með hagnaði upp á rúmar 22 millj. kr. Þar kemur einnig fram að aðrar rekstrartekjur stofnunarinnar, sem munu vera innheimt gjöld á grundvelli gjaldskrárheimilda, hækkuðu um 83 millj. kr. frá árinu á áður. Með hinni nýju gjaldskrá má lauslega gera ráð fyrir að lögbundnar rekstrartekjur MAST hækki um 300-400 millj. kr. frá því sem var. Bændasamtökin óskuðu eftir ítarlegri greiningu á því hvert ætti að sækja þær 300-400 millj. kr. sem boðaðar voru með breytingum á lögunum og gjaldskrá MAST og lögðu til að fram færi greining og nákvæm skoðun á því hvar væri hægt að ná fram hagræðingu hjá stofnuninni til að lækka kostnað fremur en að hækka álögur á atvinnugreinina. Fátt var um svör og lögin hafa nú tekið gildi.

Sjá má lögin hér.

Ný stofnun sett á fót: Land og skógur

Á liðnu þingi voru samþykkt ný lög um Land og skóg, sem fela í sér að sett verði á laggirnar ný ríkisstofnun undir yfirstjórn matvælaráðherra sem hefur eftirlit með framkvæmd laga um landgræðslu og laga um skóga og skógrækt. Lögin munu öðlast gildi 1. janúar 2024. Með sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, standa vonir til að metnaðarfull markmið ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda vegna landnotkunar og áherslur um eflingu náttúrumiðaðra lausna, með hvötum til aukinnar skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis, raungerist.

Sjá má lögin hér.

Breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002

Heimild til félags- og vinnumarkaðsráðherra var bætt við í 8. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Ráðherra er heimilt að birta í reglugerð lista yfir þau störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi. Vinnumálastofnun er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi og birt hefur verið í framangreindri reglugerð. Umrædd lagabreyting veitir erlendum sérfræðingum á sviði landbúnaðar aukið svigrúm til að koma hingað til lands í tímabundin atvinnuverkefni. Lögin voru samþykkt í mars 2023 og tóku þegar gildi. Lagabreytingin fellur vel að nýsamþykktum matvæla- og landbúnaðarstefnum til ársins 2040 en þar kemur skýrt fram að efla eigi innlenda landbúnaðarframleiðslu sem ná á fram, m.a. með aukinni og enn fjölbreyttari framleiðslu. Ljóst má vera að mikilvægur þáttur í því ferli er að sækja þekkingu erlendis frá en atvinnurekendur, sem stunda landbúnaðarframleiðslu, hafa á undanförnum misserum átt erfitt með að manna stöður með innlendu vinnuafli og á það bæði við um störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingu og önnur störf. Þá hefur einnig gengið illa að manna stöður sem hafa beina tengingu við landbúnaðarframleiðslu, s.s. störf dýralækna.

Sjá má lögin hér.

Fjárlög 2023, nr. 131/2022 – Framlag úr ríkissjóði til landbúnaðar

Í fjárlögum 2022 voru heildarframlag úr ríkissjóði til málaflokksins Landbúnaður 18.618,8 milljónir króna. Til samanburðar má í fjárlögum 2023 sjá að heildarframlag úr ríkissjóði verður 20.683,1 milljónir króna.

Ekki er allt sem sýnist, en það er álit Bændasamtakanna að um er að ræða umtalsverða raunlækkun fjárframlaga frá árinu á undan til landbúnaðar og stoðþjónustu:

  • Þannig nemur raunlækkun fjárframlaga til dýralæknaþjónustu um tæpar 25 millj. kr., sbr. fjárlagalið 12.10.-111.
  • Framlag samkvæmt útgjaldaliðnum Ýmiss stuðningur við landbúnað lækkar umtalsvert eða um tæpar 700 millj. kr., sbr. fjárlagalið 12.10.110.
  • Engin framlög eru áætluð í Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóð á árinu 2023, sbr. fjárlagalið 12.20, en fjárframlag til sjóðsins var 30 millj. kr. á árinu 2022.

Þá ber vert að nefna að framlag ríkisins til landbúnaðarins hefur lækkað um tæplega þriðjung að raunvirði frá aldamótum en á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað um meira en þriðjung og framleiðsla matvæla aukist.

Þó er rétt að nefna að íslenskur landbúnaður hefur á árinu 2022 notið aukinna fjárframlaga úr ríkissjóði í formi áburðarstyrks og greiðsla spretthópsins svokallaða, sem ber að þakka. Hins vegar verður að hafa í huga að þær greiðslur voru á grunni neyðarástands sem skapaðist vegna áður óþekktra hækkana á aðföngum sem ljóst var að ekki yrði mætt með hækkun afurðaverðs. Þessar aðgerðir höfðu því enga tengingu við framangreind markmið ríkisstjórnarinnar um að efla innlendan landbúnað.

Fjárlög ársins 2023 má sjá hér.

Matvælastefna til 2040

Þingið samþykkti matvælastefnu matvælaráðherra sem gildir til 2040. Stefnunni er ætlað að vera leiðarstef í ákvarðanatöku til aukinnar verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu á Íslandi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Markmið er að gæði framleiddra íslenskra matvæla verði í fremstu röð, að sjálfbærir framleiðsluhættir verði byggðir á vistkerfisnálgun og varúð, að virðiskeðja matvælaframleiðsla verði tryggð með því að fullnýta afurðir og að matvælaframleiðsla verði kolefnishlutlaus með náttúrumiðuðum lausnum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Til að hrinda matvælastefnu í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn.

Þingsályktunina má sjá hér.

Fyrsta landbúnaðarstefnan

Landbúnaðarstefnan var einnig samþykkt á Alþingi. Þar er að finna heildarstefnu fyrir landbúnað á Íslandi til ársins 2040. Stefnunni er ætlað að renna sterkum stoðum undir innlenda landbúnaðarframleiðslu til framtíðar, til hagsbóta fyrir samfélagið í heild og til að tryggja fæðuöryggi. Stefnan byggist á þremur lykilbreytum sem talið er að munu hafa mikil áhrif á þróun landbúnaðar á komandi árum; landnýtingu, loftlagsmál og umhverfisvernd og tækni og nýsköpun. Sett er fram metnaðarfull framtíðarsýn fyrir landbúnað sem tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni þess starfsvettvang sem framleiðsla landbúnaðarafurða er. Til að hrinda landbúnaðarstefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn og þær birtar.

Þingsályktunina má sjá hér.