Beint í efni

Lög gegn undirboðum á matvörumarkaði

13.08.2007

Á vordögum lögðu þýsk stjórnvöld fram lagafrumvarp sem ætlað er að hindra smásöluverslunina í að selja matvörur á verði sem er lægra en innkaupsverð. Ástæða þess að stjórnvöld þar í landi setja fram slíka lagasetningu er sú, að langvarandi verðstríð á matvælum milli smásölukeðja hefur mjög neikvæð áhrif á gæði matvöru, þar sem verðstríðið hefur í för með sér nær óbærilegan þrýsting á framleiðendur um að lækka verðið sífellt.

Í Englandi er einnig verið að kanna hvernig smásölukeðjurnar beita framleiðendur þrýstingi til að lækka verðið sem þeir fá fyrir vöruna. Ástæðan þar er sú sama og í Þýskalandi: krafan um sífellt lægra verð leiðir til þess að neytendum bjóðast vörur af lakari gæðum.

 

Einnig má benda á að erfið fjárhagsstaða breskra bænda er stór ástæða þess, að allt að 14% mjólkurframleiðenda þar í landi hyggjast hætta framleiðslu innan 2 ára, eins og kom fram í skoðanakönnun sem gerð var þar í landi í vor. Það mun auka enn á skort á ýmsum mjólkurvörum þar, eins og t.d. rjóma og smjöri en minnkað framboð á þeim hefur t.d. haft þau áhrif á verð á rjóma hefur hækkað um 60% á einu ári. Þrátt fyrir það er verð á mjólk til breskra bænda þessa stundina miklu lægra en það var fyrir áratug síðan.

 

Full ástæða er fyrir íslensk stjórnvöld að íhuga lagasetningu gegn undirboðum. Skemmst er að minnast þess þegar stórmarkaðir hér á landi seldu mjólkurlíterinn á 1 kr. Til lengri tíma er slík kaupmennska engum til gagns.

 

Heimild: FoodCulture og Dairy Industry Newsletter