
Loftslagsmál setja svip á landbúnað
08.09.2018
Í sumar höfum við fylgst með starfssystkinum okkar í Evrópu glíma við mikla þurrka sem hafa leikið landbúnaðinn grátt. Uppskerubrestur hefur orðið víða og dæmi eru um að uppskera á Norðurlöndunum sé einungis 1/10 af því sem þekkist í venjulegu ári. Mörgum bændum reyndist erfitt að útvega nægt fóður fyrir gripina og hafa þeir jafnvel neyðst til að skera niður bústofn sinn sökum þurrkanna.
Mörg Evrópuríki hafa gripið til aðgerða í formi fjárhagslegar aðstoðar vegna þurrkanna og hefur ESB samþykkt að aðildarríki megi flýta greiðslum styrkja til bænda og greiða 85% af stuðningi hins opinbera fyrr en ella. Í Svíþjóð hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita 1,2 milljörðum sænskra króna til aðstoðar við bændur, Norðmenn hafa gripið til ýmissa mótvægisaðgerða og dönsk stjórnvöld meta tap landbúnaðarins þar í landi á um 6,4 milljarða danskra króna.
Noregur er EFTA-ríki líkt og Ísland og nýtur því ekki viðbúnaðarpakka ESB. Íslenskir bændur hafa brugðist við þessum vanda nágranna okkar með útflutningi á heyi og er það vel, en líklega ekki nóg til að uppfylla fóðurþörf allra. Afleiðingar þessa veðurfars munu líklega til skemmri tíma leiða til offramboðs á kjöti og mjólkurframleiðsla gæti minnkað í kjölfarið.
Í summar höfum við svo sannarlega verið minnt á að ekki er hægt að ráða við hin óblíðu öfl náttúrunnar og leiðir það hugann að áhrifum loftslagsbreytinga á landbúnað til framtíðar litið. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur undanfarið unnið að sviðsmyndagerð sem ber vinnuheitið „Hver er framtíð landbúnaðar á Íslandi árið 2040?“. Í lok ágústmánaðar var mér ásamt fleirum boðið að taka þátt í vinnunni á svokölluðu sviðsmyndaverkstæði, þar sem mótun sviðsmyndanna fór fram á tveimur hálfsdags vinnustofum. Veltum við fyrir okkur framtíð landbúnaðar hér á landi undir misjöfnum forsendum og voru niðurstöður hópanna ólíkar eftir því. Þó var eitt sem sameinaði alla hópana og voru það vangaveltur um áhrif loftslagsbreytinga á íslenskan landbúnað.
Offramboð framundan
Bændablaðið greindi frá því fyrr í sumar að vísbendingar væru um að umskipti séu í uppsiglingu í nautgriparækt í Bandaríkjunum vegna loftslagsbreytinga. Nautgripaeldi er þar í hæstu hæðum, en tíðari þurrkar virðast vera að leiða til aukinnar slátrunar og stóraukins framboðs af kjöti á næstu misserum. Sömu sögu er að segja frá Brasilíu og Argentínu. Áhrifin eru lækkun á heimsmarkaðsverði, sem vissulega getur glatt neytendur tímabundið en til lengri tíma litið getur slíkt ástand snúist upp í andhverfu sína. Ódýra kjötið er flutt milli landa og erfitt getur reynst fyrir bændur viðkomandi lands að standast verðsamkeppnina. Þegar ódýra kjötið klárast getur skaði innanlandsframleiðslu í viðkomandi ríkjum verið orðinn greininni of þungur til að bregðast við og nautgripaeldi dregist saman. Þannig getur offramleiðsla nú leitt til kjötskorts á markaði og þá stórfelldrar hækkunar á kjötverði.
Innan Evrópu framleiðir Þýskaland mesta af nautakjöti og á síðasta ári nam framleiðslan um 1,1 milljón tonnum. Um þriðjungur þess er flutt til annarra landa og kemur stærstur hluti innflutts nautgripakjöts til Íslands þaðan. Þýskir bændur hafa einnig orðið fyrir barðinu á þurrkatíðinni, en sumsstaðar hefur ekki rignt síðan í maí og er 50-80% uppskerunnar skemmd á svæðum sem verst hafa orðið úti. Það má því ætla að offramboð verði einnig á kjöti í Þýskalandi.
Samstaðan dýrmæt
Þetta leiðir hugann áfram til áhrifa þessa á íslenskan kjötmarkað. Við höfum undanfarið séð nokkrar verðlækkanir til bænda fyrir kjöt og að sama skapi verðhækkanir á fóðri. Miklar launahækkanir hafa orðið í íslensku samfélagi og þrýstir það á frekari hagræðingu í greininni. Á sama tíma þarf að uppfylla aðbúnaðarkröfur sem kalla á kostnaðarsamar framkvæmdir. Það má því lítið útaf bregða ef ekki á illa að fara.
Tvennt er það sem nú þarf að hafa hugfast. Annað er að það er afar mikilvægt að halda rétt á spilunum með innflutning á kjöti til Íslands. Líta þarf á stóru myndina og að ákvarðanir séu teknar með hagsmuni þjóðarinnar til lengri tíma litið í huga. Annars gæti afleiðingin orðið sú að erfitt myndi reynst að mæta eftirspurn þegar kjötframboðið minnkar. Hitt er að við þurfum að vera í stakk búin til að mæta óvæntum ytri aðstæðum sem hafa áhrif á íslenskan landbúnað. Þar spilar þróun og nýsköpun stórt hlutverk, en samstaða neytenda og bænda um sameiginlega hagsmuni jafnvel enn stærra. Upplýsingar til neytenda þurfa því að vera skýrar og nákvæmar, ekki einungis hvað varðar uppruna heldur einnig lyfjanotkun o.fl. og hafa Búnaðarþing og aðalfundur LK bæði ályktað í þá veru.
Ég trúi því að framtíð íslensks landbúnaðar sé björt. Samkeppnin mun áfram aukast og umhverfið áfram breytast. Eins og ég hef áður sagt þá gerast góðir hlutir ekki að sjálfu sér og hagsmunagæslan felst bæði í vörn og sókn. Við þurfum að vera vakandi fyrir tækifærum og grípa þau þegar þau gefast. Með því að vinna áfram að þeim málum sem hér hafa verið talin upp, ásamt fjölda fleirum, mun okkur farnast vel.
Ritað í Skagafirði, 7. september 2018
Margrét Gísladóttir