Beint í efni

Loðdýrarækt á Íslandi er í mikilli uppsveiflu

24.10.2008

Aðalfundur Sambands íslenskra loðdýrabænda var haldinn í Eyjafirði 4.október sl. Í máli formanns kom fram að loðdýrarækt á Íslandi væri í mikilli uppsveiflu og kemur þar margt til. Framfarir í framleiðslunni bæði hvað stærð og háragæði skinnanna varðar hafa aldrei verið meiri og nú er svo komið að Íslendingar fá þriðja hæsta verð heims fyrir framleiðslu sína. Íslendingar ná einnig næsthæstu frjósemi á búum sínum og er það gleðilegt þar sem hún er einn veigamesti þátturinn í afkomu búanna.

Íslenskir loðdýrabændur hafa gengið í gegnum tímabil erfiðleika og þrenginga og undanfarin ár þar sem skráð gengi íslensku krónunnar var mun sterkara en eðlilegt gat talist. Íslenskir loðdýrabændur urðu af mikilli uppsveiflu á heimsmarkaði minkaskinna vegna þessa.

Formaður sagði jafnframt að miðað við núverandi rekstrarumhverfi og stöðu loðdýrabænda almennt væri mikið sóknarfæri í minkarækt. Nú þegar æ háværari raddir heyrðust um það að gjaldeyrisöflun væri það sem helst gæti bjargað Íslandi úr þeim þrengingum sem nú steðja að bæri að stórefla hana. Enn er verið að urða hráefni sem hægt væri að nýta í loðdýrafóður og auk þess flytja danskir loðdýrabændur út árlega um 40.000 tonn af fiskúrgangi frá Íslandi til fóðurgerðar í danskan mink. Þetta hráefni gæti skapað gjaldeyri fyrir milljarða.

Þrátt fyrir það að nú sé einungis starfandi 21 minkabú á landinu hefur fjöldi dýra aldrei verið meiri. Útflutningsverðmæti íslenskra skinna fyrir framleiðslu ársins 2007 var um 600 milljónir króna og er það met.

Samtök loðdýrabænda flytja árlega inn danska minkahögna sem bændur fá afgreidda eftir sóttvarnartíma í Vopnafirði. Einnig er rekið á vegum samtakanna kynbótabú í Holtsmúla í Skagafirði. Þaðan kaupa bændur kynbótadýr á hverju ári. Fagráð í loðdýrarækt hefur staðið að markmiðssetningu varðandi framleiðsluna og hefur árangurinn ekki látið á sér standa og vakið athygli erlendis.