Beint í efni

LK gagnrýnir harðlega fyrirhugaðar verðbreytingar hjá SS

08.01.2021

Síðastliðinn mánudag tilkynnti Sláturfélag Suðurlands um breytingar á afurðaverði nautgripa. Eiga allir flokkar nema ungkálfar að lækka um 5% og gripir sem eru undir 200 kg að lækka um 3-5% umfram almennu lækkunina. Ungkálfar eiga að hækka um 10% og í tilkynningu frá fyrirtækinu er sérstaklega tekið fram að það sé gert til að hvetja til minni ásetnings. Ástæður verðbreytinganna eru sagðar vegna birgðasöfnunar og versnandi stöðu á kjötmarkaði og eiga þær að taka gildi 18. janúar nk.

Stjórn Landssambands kúabænda hefur sent bréf á stjórn SS þar sem boðuðum breytingum er mótmælt harðlega og óskað er eftir að stjórn taki þessa ákvörðun til endurskoðunar.

 „Staðan á kjötmarkaði er vissulega erfið um þessar mundir sökum Covid faraldursins, en við teljum það afar ámælisvert að hvetja hreinlega til samdráttar í framleiðslu til lengri tíma. Hvatt hefur verið til betri og meiri framleiðslu á íslensku nautakjöti, uppbygging hefur verið í greininni og gæði framleiðslunnar hafa aukist mjög á skömmum tíma. Það væri glapræði að glata þeim góða árangri vegna þessa tímabundna ástands sem nú ríkir“, segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður Landssambands kúabænda.

Markaðshlutdeild innflutts nautakjöts hefur verið um fjórðungur allrar sölu undanfarin ár en farið heldur minnkandi. Ljóst hefur verið um nokkurt skeið að íslensk framleiðsla hefur ekki annað innanlandseftirspurn en framleiðsla hefur aukist jafnt og þétt yfir árin. Þó eigum við enn nokkuð í land með að anna eftirspurn á innanlands-markaði, sé miðað við eðlilegt árferði. Af þeim sökum hefur verið hvatt til aukinnar nautakjötsframleiðslu af betri gæðum hjá íslenskum bændum undanfarin ár, með sláturálagi í gegnum búvörusamninga, nýju EUROP kjötmati og uppbyggingu holdanautgripa með tilkomu nýs Angus-erfðaefnis.

Með hækkun á ungkálfum og framtekinni hvatningu til minni ásetnings er SS að mati stjórnar LK að senda þau alvarlegu skilaboð til framleiðenda að lítil trú sé á samkeppnishæfni íslenskrar nautakjötsframleiðslu til framtíðar. Nautkálfar sem settir eru á í dag eru að skila sér í nautakjöti á markað eftir um 2 ár. Því er verið að hvetja til samdráttar í framleiðslu til lengri tíma sem er fullkomin eftirgjöf í samkeppni við innflutning til framtíðar.

Verð tollkvóta liggur ekki fyrir

Í lok síðasta árs var ákveðið að falla frá úthlutunaraðferð tollkvóta sem beitt var í fyrsta sinn hérlendis síðastliðið sumar og hafði töluverð lækkandi áhrif á verð tollkvóta fyrir nautakjöt, eða lækkun uppá 40%. Ekki liggur fyrir niðurstaða útboðs tollkvóta fyrir fyrsta þriðjung ársins 2021 og því ekki fyrirséð hvort samkeppnisstaða íslenskrar framleiðslu lagist eða laskist þegar ákvörðunin um verðbreytingar var tekin.

„Breytingarnar á úthlutun tollkvóta er gerð með það að markmiði að lágmarka áhrif Covid á innlenda framleiðslu. Það vekur því mikla furðu að ákvörðun um verðlækkanir og hvatningu til minni ásetnings sé tekin áður en það liggur fyrir hvaða áhrif þær breytingar hafa.“ segir Herdís ennfremur.

Afkoma nautakjötsframleiðslu hríðfellur

Afurðaverð til bænda fyrir nautgripi hefur lækkað ört undanfarin ár og nú er svo komið að launaliður bóndans er að engu orðinn. Með enn frekari verðlækkunum verður hvati til framleiðslunnar raunar neikvæður og hættan á að glata þeim árangri sem greinin hefur náð undanfarið orðin mikil.

Vísitala afurðaverðs til nautgripabænda VATN

Gæði framleiðslunnar hafa aukist mjög undanfarið með aukinni áherslu á framleiðslu á gæðakjöti. Árið 2018 var hlutfall UN R- gripa og ofar um 6,5% en 2020 er það hlutfall komið í 12,8%. Heilt yfir hefur þróunin farið úr 3,7% í 7,4% ef kýr, ungkýr og naut eru tekin með í reikninginn. Það er því ljóst að það hefur náðst gríðarlegur árangur í ræktunarstarfi undanfarin ár. Mikið hefur verið lagt í að ná þeim árangri en standi afurðastöðvar ekki með framleiðslunni er ljóst að sá árangur sem bændur hafa náð, með töluverðum tilkostnaði, verður kastað á glæ vegna tímabundinna aðstæðna.

Áhersla á að vera á gæði, ekki verð

Framleiðslukostnaður nautakjöts hérlendis er hár og hærri en víðast annars staðar. Lengi hefur því verið lögð áhersla á sérstöðu íslenskrar framleiðslu og samkeppnishæfni hennar sé á grunni gæða, ekki verðs. Kröfur á íslenska framleiðslu eru miklar en sérstaðan sömuleiðis. Hérlendis er hvað minnst af sýklalyfjum notað í landbúnaði af löndum heims, áburðarmengun mælist ekki í jarðvegi, við eigum okkar eigin búfjárkyn og nýtum hreina raforku svo fátt eitt sé nefnt.

Með síaukinni samkeppni við innflutning sem er framleiddur undir allt öðrum og kostnaðarminni aðstæðum,m.a. vegna stærðar búa sem ekki þekkjast hér, hlýtur íslenskur landbúnaður að þurfa að einblína á gæði fyrst og fremst, eigi íslensk framleiðsla ekki að verða undir.

„Með gengdarlausum lækkunum á greinina undanfarin ár og núna boðuðum aðgerðum til að hvetja sérstaklega til samdráttar í framleiðslu óháð öllu er farið í þveröfuga átt. Skilaboðin eru einfaldlega þau að gæðin og sérstaðan skipta ekki máli, einungis að geta keppt við verð. Nú þegar greinin fer í gegnum gríðarlega erfiðan tíma sökum Covid-19 gerir LK þá kröfu að afurðafyrirtæki í eigu íslenskra bænda -og markaðssetur sig sérstaklega sem slíkt- standi með bændum“, segir Herdís að lokum.