
Ljós minnkar A-vítamín innihald mjólkur!
05.01.2019
Víða erlendis er mjólk seld í plastbrúsum eða glerflöskum en nú hefur komið í ljós að það er ekki endilega sérlega heppileg geymsluaðferð á mjólk. Tilfellið er nefninlega að ef ljós kemst að mjólkinni, þá snarfellur A-vítamín innihald mjólkurinnar segir í frétt DairyReporter um málið. Þar kemur m.a. fram að síðastliðin tvö ár hafi áhrif lýsingar á mjólk verið rannsökuð sérstaklega. Í ljós hafi komið að ef birta kemst að mjólk þá falli A-vítamín innihald hennar á einungis fjórum klukkstundum og ef lýsingin vari í 16 klukkustundir þá sé magn A-vítamíns fallið um 50%!
Þar sem mjólk er í gagnsæjum umbúðum er geymsluþol hennar oft í kringum 20 daga svo ætla má að veruleg hætta sé á því að magn A-vítamíns í þeirri mjólk sem lendir í lýsingu sé verulega mikið minna en mjólkur sem stendur í skugga. Af þessum sökum er mælst til þess að umbúðahönnunin taki sérstaklega mið af þessu en þegar eru til á markaðinum gagnsæjar umbúðir sem verja mjólkina gegn þessum áhrifum ljóss, en slíkar umbúðir eru dýrari en aðrar og því verða oft ódýrari umbúðir fyrir valinu hjá afurðastöðvunum/SS.