
Lítið um sænskt nautakjöt í sænskum kjötbollum IKEA
02.02.2019
Þrátt fyrir að hinar vinsælu „sænsku kjötbollur“ seljist afar vel í bæði verslunum og á veitingastöðum IKEA um allan heim, þá er afar lítið um sænskt kjöt í þessum bollum segir í frétt Aftonbladet um málið. Þar kemur m.a. fram að bollurnar innihaldi 56% nautakjöt og 28% af svínakjöti og að IKEA selji árlega meira en einn milljarð af þessum bollum! Myndi því trúlega muna um minna fyrir sænska kúabændur ef þeirra kjöt væri notað í bollurnar – en svo er bara ekki þrátt fyrir nafnið á bollunum!
Í fréttinni kemur fram að bollurnar eru framleiddar af fyrirtækinu Dafgård í Svíþjóð og þó svo að það fyrirtæki noti eitthvað af sænsku kjöti í bollurnar, þá komi mest af nautakjötinu frá öðrum löndum eins og Írlandi, Englandi, Skotlandi. Svínakjötið sem er notað í bollurnar kemur hinsvegar frá Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi og löndum Stóra-Bretlands/SS.