Beint í efni

Lítið framboð á mjólkurkvóta hækkar verðið

12.01.2005

Síðastliðna þrjá mánuði hafa viðskipti með greiðslumark mjólkur verið mjög lítil samkvæmt upplýsingum Bændasamtaka Íslands, en einungis rúmir 700 þúsund lítrar mjólkur hafa skipt um eigendur sl. 3 mánuði eða 0,2% heildargreiðslumarks á mánuði. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu námu heildarviðskipti á milli óskildra aðila í sjávarútvegi með þorskkvóta um 0,7% heildarkvóta að jafnaði á mánuði árið 2004 sem eru rúmlega þrisvar sinnum meiri viðskipti.

Í sjávarútvegi er jafnframt til sk. leigukvóti sem bætist við þetta magn, þannig að hlutfallslegur munur er enn meiri. 

 

Vegna hins takmarkaða framboðs greiðslumarks hefur verðið hækkað ört undanfarið samhliða auknu aðgengi að fjármagni, en veruleg eftirspurn hefur verið eftir greiðslumarki mjólkur, enda hafa fjölmargir kúabændur áhuga á að stækka bú sín.

 

Fækkun kúabúa undanfarin ár hefur verið umtalsverð en eðlilega hefur hægt á þeirri fækkun eftir því sem hópurinn hefur minnkað. Gott ástand í framleiðslumálum mjólkur undanfarin misseri og ágætar horfur næstu árin hefur svo gert það að verkum að kúabændur hérlendis vilja vinna áfram við mjólkurframleiðsluna og því ekki óeðlilegt að framboðið á greiðslumarki hafi verið jafn lítið og fram hefur komið.