Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Lítið afurðafélag sem stendur sig vel

20.05.2017

Hér á naut.is hefur oft verið fjallað um stóru félögin úti í heimi og fylgst með hvernig þeim gengur, enda byggja þau tekjur sínar mikið til á útflutningi og hafa veruleg áhrif á heimsmarkaðsverð mjólkurvara, sem aftur hefur einnig áhrif hjá okkur þó svo að útflutningurinn sé ekki fyrirferðarmesta starfsemi íslensks mjólkuriðnaðar. En er nauðsynlegt að reka stórt afurðafélag til þess að geta staðið sig vel með megnið af framleiðslunni á útflutningsmörkuðum? Svarið við því er einfaldlega nei og er danska afurðafyrirtækið Mammen gott dæmi um slíkt.

Mammen er ekki stórt afurðafélag, í samanburði við  Arla sem er stærsta afurðafélagið í Danmörku, en Mammen er þó næst stærsta afurðafélagið þar í landi. Fyrirtækið er með 89 innleggjendur, árlega innvigtun mjólkur nemur rétt rúmlega 160 milljónum lítra og þá er Mammen með 180 starfsmenn og þrjár starfsstöðvar. Þetta fyrirtæki, sem er í einkaeigu, er sérhæft í framleiðslu á svokölluðum gulum ostum, sem fara að lang stærstum hluta til útflutnings. Þar mæta sölumenn Mammen sölufólki frá „risunum“ á markaðinum, sem eru með allt upp í eitthundrað falda innvigtun mjólkur á bak við sig í samanburði við sölumenn Mammen, en það hefur ekki haft mikil áhrif á gengi fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum. Mammen hefur nefninlega náð afar mikilli útbreiðslu og selur osta sína í 55 mismunandi löndum.

Mammen hefur nú birt ársuppgjör sitt fyrir árið 2016 og þar kom fram að hagnaðurinn nam 5,2% af veltu þess og fengu eigendurnir 477 milljónir í hagnað eftir skatta. Þá borgaði Mammen einnig hærra afurðastöðvaverð til innleggjenda sinna en t.d. Arla svo árangurinn er enn eftirtektarverðari fyrir vikið, enda er hagnaðarhlutfall sem er hærra en 3,5% sjaldséð í þessum geira og oftast er hann á bilinu 2,5-3,5%.

En hver er uppskriftin að góðu gengi fyrir lítið fyrirtæki? Lars Staunbæk er framkvæmdastjóri Mammen og lét nýverið hafa eftir sér í dönskum fjölmiðlum að skýringin væri ekki flókin, það væri nefninlega alltaf pláss fyrir lítil fyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum. Menn þyrftu bara að vinna vinnuna sína vel og passa sig á því að fara ekki inn á of stóra markaði, sem ekki er hægt að sinna nógu vel. Þá væri ótvíræður kostur að fyrirtækið er ekki með flókið stjórnunarkerfi og því er hægt að taka ákvörðun um framleiðslu eða breytingu á framleiðslu með stuttum fyrirvara, óski viðskiptavinurinn eftir því/SS.