Líftími íslenskra kúa minni nú en áður
21.08.2002
Á aðalfundi LK flutti Baldur Helgi Benjamínsson, nemi í kynbótafræði við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn, erindi um endingu íslenskra kúa. Fram kom að íslenskar kýr endast mun skemur nú en fyrir 15 árum, eða úr rúmlega 4 árum í tæplega 3 ár og er svo nú komið að meðalaldur íslenskra kúa er áþekkur því sem gerist í nágrannalöndunum. Skýringin væri fyrst og fremst hertar kröfur til mjólkurgæða sem ýta bændum til að slátra lélegri gripum nú mun fyrr en áður var gert.
Jafnframt kom fram að ef fram fer sem horfir, verður ending íslenskra kúa svo lítil að allt útlit er fyrir að til verulegra vandræða komi innan örfárra ára vegna slakrar endingar kúnna. Baldur sagðir að ljóst væri að vandi íslenskra kúabænda væri mikill, en ekki óyfirstíganlegur, þar sem mögulegt væri að kynbæta fyrir aukinni endingu gripa. Ljóst væri hinsvegar að til þess að svo væri unnt yrði að breyta verulega kynbótaáherslum í íslenskri nautgriparækt.