Beint í efni

Lífrænar mjólkurvörur á markað í Líbanon

13.08.2011

Nýverið opnaði fyrsta lífræna afurðastöðin fyrir mjólkurvörur í Líbanon en afurðastöðin mun starfa samkvæmt reglum sem gilda í Evrópu! Það var matvælaráðherra landsins, Hussein El Hajj Hassan, sem mundaði skærin við þetta tækifæri en afurðastöðin mun m.a. vinna osta og jógúrt úr bæði kúa- og geitamjólk. Fyrirtækið sem stendur á bak við þessa nýjung á hinum Líbanska markaði heitir Biomass og var stofnað árið 2007. Fyrirtækið er stórtækt á sviði lífrænnar framleiðslu og er með bæði egg, ávexti, grænmeti og safa í sinni framleiðslu. Að fara yfir í mjólkurvörur var eðlilegt framhald hjá forsvarsmönnum Biomass enda hafa söluaðilar í Líbanon orðið varir við aukna eftirspurn eftir lífrænt vottuðum mjólkurvörum. Sömu sögu er að segja um sölumenn hjá Líbanondeild Arla, sem hyggur á sölu lífrænna vara frá Skandinavíu í Líbanon, sér í lagi höfuðborginni Beirut þar sem helmingur íbúa landsins búa.
 
Um Líbanon
Líbanon, sem er í vesturhluta Asíu og liggur að Sýrlandi og Ísrael, er rétt rúmlega 10 þúsund ferkílómetrar að stærð með um 4,2 milljónir íbúa. Landið er að mestu byggt af aröbum og er  þekkt fyrir baráttu fyrir réttindum almennra borgara og er efst á þeim lista yfir lönd Miðjarðarhafsins. Landið hefur átt í útistöðum við Ísrael í langan tíma en Hezbolla hreyfingin, sem berst einmitt fyrir réttindum Palenstínufólks í Ísrael, er með aðsetur í Líbanon.
 
Um landbúnað í Líbanon
Landbúnaður er þriðji þýðingarmesti atvinnuvegurinn í landinu á eftir þjónustu og iðnaði og helstu afurðir eru epli, perur, appelsínur og sítrónur. Ræktunin er þó mjög fjölbreytt og er kornrækt nokkuð stór einnig í landinu, sem og tóbaksframleiðsla. Mjólkurframleiðsla landsins er all stór með 65 þúsund mjólkurkýr, 315 þúsund mjólkurær (Awassi kynið) og 400 þúsund mjólkurgeitur (flestar af Baladi kyni).
 
40% af kúnum eru af sk. Baladi kyni sem er arabískt mjólkurkúakyn og má auk þess finna í Ísrael, Sýrlandi, Egyptalandi og Jórdaníu. Baladi kýr eru léttar eða um 350 kg og er kynið afar aðlagað erfiðum aðstæðum til beitar og mjólkurframleiðslu í þessum löndum. Afurðagetan er reyndar einstaklega lítil og algengar meðalafurðir eru undir 2.000 kg og oft eru þær í kringum 1.500 kg/ári. Undanfarin ár hafa bændur kynbætt stofninn með Holstein kyni frá Kanada sem hefur skilað tvöföldun í afurðasemi og rúmlega það. 34% mjólkurkúnna eru nú af þessu blendingskyni. Þá hafa verið fluttir inn gripir frá Þýskalandi og Hollandi og eru 26% mjólkurkúnna í Líbanon af hreinu Friesian kyni og afurðageta þeirra því í líkingu við það sem þekkist í Evrópu. Þessar kýr eru hinsvegar þurftamiklar á fóður og eru því oftar en ekki á litlum kúabúum, oft 4-5 saman á búi!
 
Landið er í raun afar vel í sveit sett til landbúnaðar en vegna takmarkaðs aðgengis að vatni er landbúnaðurinn ekki umsvifameiri. Landið er því stór innflytjandi á landbúnaðarvörum/SS.
 
Heimildir: Úr ýmsum áttum af veraldarvefnum!