Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Líflegar umræður á fyrsta haustfundi LK

14.10.2011

Tæplega sjötíu manns mættu á fyrsta haustfund Landssambands kúabænda sem haldinn var í Þingborg í gærkvöldi. Á fundinum var stefnumörkun Landssambands kúabænda 2021 kynnt í fyrsta sinn, auk þess sem farið var yfir helstu mál sem eru á borðum landssambandsins um þessar mundir. Talsverðar umræður voru um stefnumörkunina og almennt voru fundarmenn sáttir við hana og töldu mikilvægt að hafa skjalfesta framtíðarsýn fyrir búgreinina, en gagnrýnisraddir heyrðust einnig. Talsvert var rætt um íþyngjandi áhrif mikillar fjárbindingar í greiðslumarki á samkeppnishæfni greinarinnar og hvaða leiðir væru færar, til að opinber stuðningur við mjólkurframleiðendur nýttist starfandi bændum sem best, sem og fastafjármunir sem bundnir eru í greininni. Breytingar á kvótakerfinu þyrftu þó að gera að vandlega athuguðu máli. Óskir um fjölgun markaðsdaga kvótamarkaðar voru ítrekaðar. Staða búvörulaga kom einnig til umræðu og greinilegt var á fundarmönnum að óánægja ríkir með að nauðsynlegar breytingar og úrbætur á þeim skyldu ekki ná fram að ganga á síðasta ári. Þá sendu fundarmenn afar skýr skilaboð til nýráðins aðstoðarmanns sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Árna Snæbjörnssonar sem mætti á fundinn fyrir hönd ráðherra, um að ekki kæmi til greina að hrófla við reglum varðandi útdeilingu á ónýttu greiðslumarki.

Staða kúastofnsins bar einnig á góma og hvaða leiðir væru færar til að auka kynbótaframfarir, en ljóst er að á því sviði liggja hvað mestir möguleikar til að ná fram aukinni hagkvæmni í mjólkurframleiðslunni hér á landi. Þeirri spurningu var varpað fram hvort ekki mætti gera hliðstæða skoðanakönnun meðal bænda um kynbótaáherslur og ræktunarfélagið Geno gerði meðal sinna félagsmanna fyrir fáeinum árum. Talsvert var og rætt um nautakjötsframleiðsluna og kom það mat fram að auka mætti ásetning nautkálfa um 2.000 stk árlega til að mæta góðri eftirspurn eftir nautakjöti. Þó væri ljóst að sveiflukenndri afkomu á umliðnum árum mætti að nokkru leyti kenna um núverandi stöðu á framboðshliðinni. Skuldamálum bænda fengu einnig sinn skerf í umræðunni. Í henni kom fram það mat að í skýrslu eftirlitsnefndar til efnahags- og viðskiptaráðherra væri fjöldi þeirra búa sem ættu í vandræðum vegna stökkbreyttra lána, verulega vanmetinn. Einnig væri það staðreynd að talsverður fjöldi búa sem gengið hefði í gegnum endurskipulagningu skulda hjá Arion banka, mætti gera ráð fyrir því að hafa biðlánin hangandi yfir sér næstu árin, með tilheyrandi óvissu, þrátt fyrir að með endurútreikningi erlendra lána lækkuðu þau umtalsvert. Sú staðreynd vekti vonbrigði og furðu, þar sem að litlar sem engar líkur stæðu til þess að biðlánin yrðu nokkru sinni að vaxtaberandi bankaeigum.

 

Haustfundir LK halda síðan áfram í næstu viku, hringferð formanns og framkvæmdastjóra heldur áfram á Hótel Hvolsvelli á mánudaginn kl. 12 og Hótel Geirlandi um kvöldið kl. 20.30. Verða fundunum gerð nánari skil hér á naut.is./BHB