Lífland hefur áburðarsölu
18.01.2016
Fréttatilkynning frá Líflandi
Lífland mun hefja innflutning tilbúins áburðar þetta vorið og er þetta í fyrsta sinn sem félagið býður upp á slíka vöru. Meginástæða þess að félagið fetar þessa braut er stefna sem mörkuð hefur verið um að geta boðið bændum landsins upp á heildarlausnir í búrekstrarvörum. Áburðurinn er markaðssettur undir heitinu „LÍF“ og slagorðinu „Fáðu LÍF í tún og Akra“ sem vísar beint í eiginleika áburðarins og nafn Líflands. Áburðurinn kemur frá írska fyrirtækinu Grassland Agro og uppistaða vöruframboðsins eru fjölkorna blöndur. Grassland Agro er virt fyrirtæki á írska áburðarmarkaðinum og um þeirra hendur fer um fjórðungur alls áburðar sem seldur er á Írlandi þar sem þeir reka þrjár blöndunarstöðvar. Verða alls níu vörutegundir á boðstólunum þetta árið m.a. nokkrar selenbættar. Nánari upplýsingar um vöruúrvalið og tilhögun flutningstilboða veita söluráðgjafar Líflands.