Beint í efni

Lífdísel úr repju

14.03.2011

Í Morgunblaðinu í dag er baksviðsgrein eftir Helga Bjarnason blaðamann um möguleika á framleiðslu á lífdísel úr repjufræi. Rætt er við Hermann Guðmundsson forstjóra N1 og Eirík Egilsson, bónda á Seljavöllum í Austur-Skaftafellssýslu. Grein Helga fer hér á eftir:

N1 mun leita eftir samstarfi við bændur um ræktun á repju eða nepju til olíuframleiðslu. Fyrirtækið telur að arðbær hreinsistöð þurfi að geta framleitt um 8 þúsund tonn á ári. Til þess þarf ræktun á 8 þúsund hekturum eða tvöföldu því landsvæði ef miðað er við að landið nýtist til þessarar ræktunar annað hvert ár.

»Við erum að líta til orkuöryggis þjóðarinnar til langs tíma. Jarðolíuöldinni mun ljúka á þessari öld og þá þarf eitthvað annað að koma í staðinn,« segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1.

Fyrirtækið veðjar á lífdísil og selur þegar um 2.500 tonn á ári. Er olíunni blandað saman við gasolíu og 5% »biodísill« seldur á fimm útsölustöðum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Þá segir Hermann að fastir viðskiptavinir fái olíuna á geyma á eigin athafnasvæði og sumir noti repjuolíuna óblandaða. Repjuolían er mun dýrari en jarðefnaolía á heimsmarkaði en vegna breytinga á sköttum um áramót er nú hægt að selja hana við sama verði. »Við finnum að ákveðinn hluti viðskiptavina okkar hefur einsett sér að nota lífdísilolíu, og velur hana, þótt við höfum ekki kynnt hana sérstaklega.« Einn af kostum repjunnar er að ræktun hennar bindur meira af koltvíoxíði en nemur útblæstri við notkun olíunnar.

Í Evrópu er verið að breyta stöðlum þannig að hægt sé að nota dísilolíu með 10% blöndun á ökutæki án áhættu. Þróunin er komin skemmra á veg í Japan þar sem stórir bílaframleiðendur eru. »Við munum fylgja alþjóðlegum stöðlum og stíga skrefin varlega svo ekki komi upp gangtruflanir eða önnur vandamál hjá viðskiptavinum okkar,« segir Hermann.

Stíga næsta skref

Siglingastofnun hefur staðið fyrir rannsóknum á ræktun á repju og nepju til olíuframleiðslu í samvinnu við bændur og Landbúnaðarháskóla Íslands. Nokkrir bændur hafa náð ágætum árangri og töluvert var sáð síðastliðið sumar. Olíurepjan er tvíær jurt og því gefa fræin sem sáð er í sumar ekki uppskeru fyrr en næsta sumar.

»Við höfum fylgst með þessum verkefnum og höfum einnig verið að draga að okkur gögn og upplýsingar. Ég tel að flestar upplýsingar liggi nú fyrir og það þurfi að stíga næsta skref, kanna hvort nægilegt land sé fyrir hendi til ræktunar þannig að hægt sé að hefja arðbæra úrvinnslu,« segir Hermann.

Þegar hafa um tuttugu bændur lýst yfir áhuga á samstarfi við N1 um verkefnið og þeir telja sig geta ræktað í um 2 þúsund hekturum. »Það bætist í þennan hóp á hverjum degi. Margir hafa tekið þátt í ræktunartilraunum og íhuga hvernig þeir geti nýtt land sitt á sem arðbærastan hátt,« segir Hermann.

Hann segir mikilvægt að það liggi fyrir hvort bændur séu tilbúnir í þetta og hvar á landinu þeir séu, til þess að hægt sé staðsetja úrvinnslustöðvar og segir einnig mikilvægt fyrir bændur sem vilja leggja í þennan kostnað að hafa tryggan kaupanda að afurðunum. Hermann reiknar með tveimur kjörnum. Annar verði á Suðurlandi og hinn á Norðurlandi. Telur hann hugsanlegt að byggja fyrst upp hreinsistöð á öðrum staðnum og flytja hráefni á milli, á meðan reynsla er að komast á reksturinn.

N1 hefur þegar samið um að kaupa alla framleiðslu lífdísils sem Orkey ehf. á Akureyri og Lífdísill ehf. í Reykjavík geta framleitt. Orkey hefur hafið framleiðslu á lífdísil úr notaðri steikingarolíu. Lífdísill framleiðir olíuna úr dýrafitu, meðal annars úr sláturafurðum.

Markaðurinn er tilbúinn

Markaðurinn er fyrir hendi og N1 hefur dreifingarkerfið. Nú eru flutt til landsins tæplega 300 þúsund tonn af gasolíu á ári. N1 selur 40-45% af því magni. Ef miðað er við 5-10% lífdísilolíu fyrir ökutæki og að sumir noti hana óblandaða, til dæmis á skipavélar, myndu 8 þúsund tonn fljótlega verða of lítil framleiðsla.

Við framleiðslu olíu úr repjufræi fellur til mikið hrat sem talið er henta vel til fóðurframleiðslu. »Við höfum rætt við fóðurfyrirtækin. Þau eru tilbúin að gera bindandi kaupsamninga um þetta hráefni, ef gæðin uppfylla kröfur þeirra,« segir Hermann. Reikna má með að 20 þúsund tonn af hrati og repjuköku falli til við framleiðslu á 8 þúsund tonnum af olíu. Olíuframleiðsla hér á landi getur því einnig dregið úr innflutningi á fóðurhráefnum og sparað gjaldeyri á báðum sviðum.  
 
Komnir sunnar en við gerðum okkur grein fyrir

 

»Okkur finnst mikilvægt að fara ekki í stórkarlalegar æfingar. Ná þarf tökum á ræktuninni áður en byrjað er að tala þessa möguleika of mikið upp,« segir Eiríkur Egilsson, bóndi á Seljavöllum í Hornafirði. Hann er í stjórn félags sem bændur í Austur-Skaftafellssýslu hafa sameinast um til að gera tilraunir með ræktun repju og nepju til olíuframleiðslu.

Eiríkur bendir á að fóðurverð hafi hækkað gríðarlega á undanförnum árum og spár bendi til að það eigi enn eftir að hækka, ekki síst próteinríkt fóður. Repjan er auðug af próteini.

Hann segir að mikið land sé í héraðinu sem geti hentað til ræktunar á repju og nepju. Sumt sé frekar rýrt, meðal annars gömul sandtún sem ekki hafi verið slegin í mörg ár. »Það er ef til vill möguleiki á að skapa verðmæti á þeim á ný,« segir Eiríkur. Ræktunarfélagið verður með tilraunareiti í öllum fimm sveitum héraðsins og verða mismunandi afbrigði prófuð í öllum reitunum.

Við undirbúning verkefnisins voru loftslagsbreytingar kannaðar. Meðalhitinn á Hólum í Hornafirði reyndist hafa verið 5,3 stig á nýliðnum áratug í stað 4,4 stiga á áratugnum þar á undan. Getur munað talsvert um þessa gráðu. »Við erum greinilega komnir miklu sunnar á hnöttinn en við gerum okkur grein fyrir,« segir Eiríkur.

»Við finnum að það er töluverður áhugi fyrir ræktun á repju. Sveitarfélagið kemur til dæmis að þessu með myndarlegum hætti,« segir Eiríkur. Landbúnaðarháskóli Íslands tekur einnig þátt í verkefninu.

Þegar niðurstöður tilraunaræktunarinnar liggja fyrir ættu bændur að hafa grundvöll til að ákveða hversu stórtækir þeir verða í ræktun.

 

helgi@mbl.is