Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

LIC: Kyngreint sæði skilar svipuðu fanghlutfalli og hefðbundið

28.08.2012

Sem kunnugt er hefur á undanförnum árum verið unnið mikið rannsóknarstarf víða um heim, til að þróa aðferðir til að kyngreina nautasæði og þar með að ráða kynferði kálfanna sem koma í heiminn. Eins og greint hefur verið frá hér á naut.is hefur nýsjálensk mjólkurframleiðsla verið í mjög örum vexti á undanförnum árum, hvatinn til að fá fleiri kvígukálfa til endurnýjunar og stækkunar búanna er því mjög mikill þar syðra. Akkilesarhæll þessarar tækni hefur þó hingað til verið sá, að fanghlutfall þar sem kyngreint sæði er notað er amk. 15-20% lægra en gerist með hefðbundnu sæði. Slíkt veldur miklu tapi í öllum framleiðslukerfum, en alveg sérstaklega miklu þar sem burður kúnna er árstíðabundinn eins og á Nýja-Sjálandi, þar sem burður stendur nú sem hæst. Þá er öryggi kyngreiningarinnar í kringum 90%. Fjöldi sáðfruma í skammti er á bilinu 1-2 milljónir í stað hefðbundinna 15 milljóna (hér á landi eru milli 20 og 30 milljónir fruma í skammti).

Nautgriparæktarfélagið Livestock Improvement Company sem er samvinnufélag nýsjálenskra kúabænda, með um 75% af mjólkurkúnum innan sinna vébanda, hefur nú þróað aðferð við kyngreiningu sæðis sem skilar fanghlutfalli sem er innan við 5% lakara en hefðbundið er. Það er gert með því að sameina kyngreininguna og aðferðir til að gera sæðið langlífara. Kostnaðurinn er enn sem komið er um þrefalt hærri en á hefðbundnu sæði, auk þess sem sæði úr bestu nautunum hefur ekki verið fáanlegt kyngreint, vegna þess hve mikið af því fer til spillis við kyngreininguna. Með bættu fanghlutfalli búast forsvarsmenn félagsins við mikilli aukningu í eftirspurn og þar með lækkandi einingakostnaði til félagsmanna, þeim til hagsbóta. Með þessari tækni, einföldum DNA prófum til staðfestingar á ætterni og sjálfvirkum búnaði til beiðslisgreiningar, verði notkun heimanauta (helstu samkeppnisaðilar ræktunarfélaganna) ekki á nokkurn hátt áhugaverður valkostur í kynbótastarfinu. Auk þess mun þetta skila mjólkurframleiðendum gríðarlegum ávinningi, t.d. í formi stóraukinna möguleika á strangara úrvali ásetningskvígna en verið hefur, tíðari endurnýjun, sölu lífgripa og möguleika á stækkun búanna án aðkeyptra gripa. Kyngreiningin býr einnig til mikil sóknarfæri í kjötframleiðslunni, með því að nota kyngreint holdanautasæði á lakari hluta mjólkurkúnna og tryggja að holdakýrnar beri nautkálfum./BHB