LEIÐRÉTTING
29.06.2005
Í frétt Morgunblaðsins í dag var haft eftir undirrituðum að breytingar á greiðslumarki mjólkur úr 105 milljónum lítrum mjólkur á núgildandi verðlagsári upp í 111 milljónir lítra mjólkur á næsta verðlagsári, 5 milljónir lítrar mjólkur, skiluðu auknum tekjum kúabænda upp á fjóra milljarða
króna. Þetta er auðvitað ekki rétt enda eru heildartekjur kúabænda á Íslandi rétt í kringum 9 milljarðar króna. Hið rétta er að beingreiðslur ríkissjóðs eru um fjórir milljarðar króna en aukningin á greiðslumarkinu á næsta verðlagsári skilar um 200 milljónum króna í auknar tekjur íslenskra mjólkurframleiðenda vegna aukins framleiðslumagns mjólkur.
Á næsta verðlagsári, þann 1. september næstkomandi, tekur við nýr mjólkursamningur sem gildir til 31. ágúst árið 2012. Í þeim samningi felst að beingreiðslur ríkissjóðs á hvern framleiddan líter mun dragast saman úr 3,9 milljörðum lítrum í upphafi samningstíma í 3,0 milljarða í lok samningstíma. Beingreiðslur ríkisins á hvern framleiddan líter munu því dragast saman um 22,7% á næstu 7 árum. Heildartekjur mjólkurframleiðenda munu þó ekki dragast jafn mikið saman, þar sem hluti greiðslna færist yfir í annað form sk. óframleiðslutengdar greiðslur. Heildarstuðningur ríkissins mun þó í heild dragast saman um 5,9% á samningstímanum. Áhrif stækkaðs greiðslumarks næsta verðalgsári hefur því engin áhrif á útgjöld ríkisins, en beingreiðslur á hvern framleiddan lítra munu á hinn bóginn dragast saman enda eru greiðslur til mjólkurframleiðenda bundnar við fast magn sem nemur 105 milljónum lítrum mjólkur.
Ástæður aukningar á greiðslumarki nú felast fyrst og fremst í góðri sölu mjólkurvara á liðnum misserum, sem og söluspá varðandi næstu misseri. Skiptir þar sköpum hve Íslendingar hafa tekið vel nýjungurm mjólkuriðnaðarins s.s. skyrdrykknum.
Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég tek að sjálfsögðu fulla ábyrgð á því að þetta hafi ekki komist rétt til skila í upphafi, enda málið flókið.
Snorri Sigurðsson
framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda