Beint í efni

Spálíkan um mjólkurframleiðslu á Íslandi

02.09.2017

Samtök afurðarstöðva í mjólkuriðnaði hafa undanfarið unni að þróun spálíkans fyrir mjólkurframleiðslu á Íslandi. Í nýrri samantekt SAM, sem byggð er á líkaninu, er komið inn á fjölda mjólkurkúa í landinu og aldurssamsetningu, tölur um förgun kúa, fjölda kelfdra kvígna og kvígukálfa ásamt því að rýna í sæðingatölur og fjölda burða.

Í fjölda mjólkurkúa hefur orðið sú meginbreyting á, að miðað við ágúst 2016 hefur gripum fækkað í heildina um 418, en ef aldursamsetningin er greind þá sést að yngri kúm (á 2.-3. og 4. aldursári) fjölgar milli ára, á meðan það er fækkun á öllum öðrum aldursárum. Heildarfjöldinn er í niðursveiflu sem hófst í mars í þessu ári eftir fjölgun sem staðið hafði frá september 2016. Út frá þessum upplýsingum og samanburði milli 2016 og 2017 í innvigtunartölum þá áætlar SAM að heildarinnvigtun á árinu 2017 verði á bilinu 148-150 milljónir lítra. Þess fyrir utan helst fjöldi kelfdra kvígna í hendur milli 2016 og 2017, en kvígukálfum fjölgar milli ágústmánaða þessara ára um 555, sem bendir til að töluverð geta til framleiðsluaukningar sé á næsta leyti.

Tölur um sæðingar í samantektinni eru býsna merkilegar. Þar kemur fram að fjöldi og árangur fyrstu sæðinga sé að aukast töluvert á þessu ári miðað við fyrstu 7 mánuði síðustu 6 ára. Út frá því að fjöldi 1. sæðinga gefi til kynna þann fjölda sem bóndi vill hafa í fjósi, og að hækkun á fanghlutfalli eftir fyrstu sæðingu hækkar afurðamagn eftir hverja kú á hennar æviskeiði, má álykta að framleiðsluaukning á mjólk sé í kortunum.

Burðir eru færri það sem af er ári miðað við sömu mánuði 2016. En líkt og með fækkun heildarfjölda mjólkurkúa er hlutfallsleg lækkun á innvigtun minni en ætla mætti miðað við þessar tölur. Skýringum fyrir því gæti meðal annars verið að leita í breytingum á nyt eða hlutfalli mjólkur seldrar til afurðastöðva, en að svo stöddu liggja ekki fyrir staðfestar upplýsingar til að greina þessa þróun í þaula.

Í lok samantektarinnar segir höfundur frá vinnu við að áætla innvigtun út frá mánaðarlegum fjölda fyrstu sæðinga, og þrátt fyrir óvissu gæti um þróun í fjölda sæðinga sem áhrif hafa á innvigtun ársins 2018, þá er áætlað að mjólkurframleiðsla á árinu 2018 verði um 152 milljónir lítra.

Sé þessi spá borin saman við sölutölur frá SAM, þá sést að búast má við töluverðri framleiðslu umfram bæði greiðslumark og sölu árið 2018. Sala á próteingrunni innanlands var tæpar 133 milljónir lítra síðustu 12 mánuði, og sala á fitugrunni rúmar 145 milljónir lítra. Séu þessar tölur hafðar til hliðsjónar er nokkuð skýrt að það stefnir í að framleiðsla verði töluvert umfram greiðslumark- og innanlandssölu á næsta ári.

Þetta spálíkan SAM er eins og fram kemur að ofan, enn í þróun. En engu að síður er ástæða til þess að hafa það til hliðsjónar þegar framtíðarþróun mjólkurframleiðslu er rædd. Í umræðum um landbúnað hefur um áraraðir verið bent á mikilvægi hans sem byggðamál, og ef mjólkurframleiðslan á að geta þjónað hlutverki á þeim vettvangi, þá er stöðugleiki í framleiðsluskilyrðum eitt af lykilatriðunum sem atvinnuvegurinn þarf að skapa sér.

Með því að gefa framleiðslu frjálsa skapast hætta á offramleiðslu, sem leitt getur til óvissutíma og neytt búgreinina til að bregðast við með aðgerðum sem gætu orðið sársaukafullar fyrir fjölda bænda. Sömuleiðis er það mikilvægt fyrir nýliða sem koma inn í greinina með áætlanir um að vera þar næstu áratugina, að þær áætlanir séu byggðar á eins traustum stoðum og kostur er.

Nú á haustdögum fer af stað innan Landssambands kúabænda, vinna við gerð stefnumótunar sem gildir til næstu 10 ára. Þar mun vera leitast við að skapa skýra stefnu í hinum ýmsu málefnum er að búgreininni snúa, að miklu leyti einmitt til þess að bændum reynist auðveldara að gera sínar langtímaáætlanir og að þær skili árangri.

Það er mikilvægt að snúa af þeirri leið sem mörkuð er í búvörusamningnum um að leggja af framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu á Íslandi. Vítin sem ber varast höfum við nú ljóslifandi fyrir framan okkur. Kúabændur kjósa um þetta atriði við endurskoðun samningana árið 2019 og hafa það því í hendi sér hvernig málin þróast, látum okkar eigin mál ekki renna okkur úr greipum.

Arnar Árnason, stjórnarformaður LK