
Leiðarinn: Nauðsynlegt að eiga gott samtal!
18.08.2018
Arnar Árnason, formaður LK, skrifar leiðara ágústmánuðar hér á naut.is sem birtist í dag. Hann beinir sjónum sínum að stjórnkerfinu og hvernig það nánast leggst í dvala á sumrin og þær breytingar sem framundan eru í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í tengslum við mannahald þar. Þá fjallar hann um ákvörðun ráðherra um breytinguna á sameiningu jarða og flutning greiðslumarks og segir m.a.: „Tilgangurinn með þessu er að koma í veg fyrir að bændur kaupi jarðir, flytji greiðslumarkið, og selja þær svo strax aftur og komist þannig hjá því að treysta á innlausnarmarkaðinn til greiðslumarkskaupa. Ég óskaði eftir því sérstaklega, þegar vinna við þessar breytingar stóð yfir, að tryggt yrði í framhaldinu að nýtt fyrirkomulag kæmi ekki í veg fyrir „eðlilega“ sameiningu jarða þ.e. að áfram yrði hægt að sameina samliggjandi jarðir og/eða jarðir sem stærðar eða nýtingar vegna er skynsamlegt að sameina nálægum jörðum“ og áfram segir hann svo: „Sitt sýnist hverjum í þessu máli og hef ég fengið nokkur viðbrögð við þessum breytingum þar sem bændur tjá bæði ánægju sína yfir því að nú sitji allir við sama borð varðandi verslun með greiðslumark, en einnig ónægju þar sem bændur hafa gagnrýnt að núverandi fyrirkomulag á viðskiptum með greiðslumark komi í veg fyirr að bændur geti stækkað bú sín eins og þeir telja sig þurfa. Bæði sjónarmiðin eiga fullan rétt á sér.“
Í lok leiðarans beinir hann orðum sínum til bænda landsins og segir þar: „Það er mikil vinna framundan vegna endurskoðunar búvörusamninga og nauðsynlegt að bændur eigi gott samtal um þessi framtíðarmál greinarinnar. Til þess að það getir orðið verður umræðan að eiga sér stað á réttum vettvangi og því vil ég hvetja alla kúabændur til að mæta á haustfundi LK og koma sínum sjónarmiðum til skila á þeim vetvangi“, segir Arnar m.a. í leiðara sínum sem þú getur lesið í heild sinni hér á forsíðu naut.is eða t.d. með því að smella hér/SS.