Beint í efni

Leiðarinn: Fjölþætt starfsemi fyrir ykkur

08.07.2017

Elín Heiða Valsdóttir, kúabóndi í Úthlíð og stjórnarmaður hjá LK, ritar leiðara júlí mánaðar á naut.is og fer hún í leiðaraskrifum sínum yfir þá ótal snertifleti sem LK hefur við umfangsmikla starfsemi kúabænda nú til dags.  Starfsemi LK mótast eðlilega að hinu fjölbreytta starfsumhverfi sem kúabændur landsins búa við og í leiðaranum kemur Elín inn á nokkur af þeim málum sem hafa verið fyrirferðarmikil hjá samtökunum undanfarið. Tekur hún m.a. stefnumörkunina sem dæmi og segir: „Á aðalfundi LK 24.-25. mars síðastliðinn voru samþykktar ályktanir um stefnumörkun í nautakjötsframleiðslu annars vegar og stefnumörkun í mjólkurframleiðslu hins vegar. Með haustinu verður komið á fót vinnuhópum sem taka þessi málefni til umfjöllunar og munu jafnframt eiga samtal við aðra hagsmunaaðila. Stefnumörkun af þessu tagi þarf og á að vera í sífelldri endurskoðun enda tekur hún, eðli málsins samkvæmt, mið af þeim aðstæðum sem greinin býr við á hverjum tíma. Árið 2019 verður kosið um hvort bændur vilja halda í greiðslumark mjólkur frá og með árinu 2021. Hlutverk vinnuhóps um stefnumörkun í mjókurframleiðslu verður m.a. að stilla upp þeim ólíku sviðsmyndum sem upp geta komið í kjölfar framangreindra kosninga. Stefnumörkun til ársins 2027 verður svo unnin út frá þeim. Það er von okkar í stjórn LK að samtal á þessum grunni byggi undir umræðu meðal kúabænda og geti mótað skýrari sýn á næstu framtíð.“

Leiðara Elínar Heiðu má lesa í heild sinni hér á forsíðu naut.is en einnig með því að smella hér/SS.