Beint í efni

Alþingiskosningar, Fyrirmyndarbú, Búvörusamningar ofl.

05.11.2016

Ágætu lesendur!

Nú er búið að kjósa til Alþingis í 22. sinn frá stofnun lýðveldisins. Fullt er af nýju fólki sem sest á Alþingi núna. Það fór ekki mjög mikið fyrir landbúnaðarumræðu í aðdraganda kosninganna. Einna helst heyrðist að það þyrfti að breyta landbúnaðarkerfinu. Hvergi var sagt að það þyrfti að stórauka framlög til landbúnaðarmála, bara að breyta. Hversu vel ætli þingheimur sé upplýstur hvernig landbúnaður og kerfið í kringum hann virkar? Ég vil hvetja alla sem vilja breyta landbúnaðarkerfinu að kynna sér vel hvernig það virkar í dag og hvaða áhrif það kann að hafa á landbúnaðinn og samfélagið ef því er breytt. Stundum getur verið gott að flýta sér hægt. Nú er búið að skipa nefnd til að ná þjóðarsátt um landbúnaðinn. Landssamband kúabænda á ekki fulltrúa í þessari nefnd frekar en Félag atvinnurekenda, svo við verðum að sitja við sama borð og þeir. Vonandi getum við komið skoðunum okkar á framfæri inn í þessa nefnd í gegnum fulltrúa Bændasamtaka Íslands.

Fyrirmyndarbú er verkefni sem LK og SAM hafa unnið að í nokkuð langan tíma. Nú er Jarle Rejersen, dýralæknir og starfsmaður MS, farinn að taka út kúabú og gefa þeim einkunn. Þau bú sem standast kröfur fá heitið fyrirmyndarbú. Frá og með næstu áramótum eiga svo þessi bú að fá allgóða umbun, en þau fá 2% hærra verð fyrir framleiðslu sína. Ég vil því hvetja alla til að fá úttekt á búinu hjá sér. Oft er glöggt gests auga. Við höfum mjög gott af því að fá til okkar mann sem getur sagt okkur hvernig hlutirnir eiga að vera. Oft þarf ekki að gera margt til að hlutirnir verði í góðu lagi. Tæki og tól þurfa ekki að vera á víð og dreif út um allt og alger óþarfi er að flagga með rúlluplasti í kringum bæinn. Við verðum öll að muna að við erum að framleiða matvæli með miklum gæðum. Við viljum ekki að fólk missi matarlystina á því að keyra framhjá sóðalegum býlum. Ímynd og aftur ímynd. Nú er hver einasti maður með myndavél í vasanum. Er ekki skemmtilegt að fá mynd af fínu búi á „facebook“ með fallegum kúm á beit?

Nú fer að styttast í áramótin og nýr samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar tekur gildi. Ég vil minna á að í 2. grein 2. lið í samningnum stendur: „skilyrði fyrir greiðslu er þátttaka í afurðaskýrsluhaldi Bændasamtaka Íslands og fullnægjandi skil á skýrslum“. Þetta á við bæði mjólkur- og kjötframleiðendur. Þeir bændur sem hafa ekki verið í skýrsluhaldi þurfa því að huga að því að koma sér í skýrsluhaldið. Kúabændur þurfa að fá sér mjólkurmæla, fara að vigta úr kúnum og taka sýni úr þeim. Betra er að huga að þessu tímanlega, því alltaf tekur tíma að koma bústofninum inn í skýrsluhaldsforritið Huppu og læra á tölvukerfið. Ekki vilja menn verða af stuðningsgreiðslum eftir áramótin?

Stjórn LK hefur gert að tillögu sinni við Framkvæmdanefnda um búvörusamninga, að framleiðslukvöð, til að halda fullum beingreiðslum, verði 90% fyrir árið 2017. Framleiðslukvöðin hefur verið svolítið rokkandi síðustu 3 ár. 2016 var hún 80%, 2015 100% og 2014 var hún 95%, en árin 2006-2013 var hún 90%. Allar líkur eru á, að mjólkurkvótinn verði aukinn fyrir árið 2017 vegna góðrar sölu á þessu ári. Okkur fannst því rétt að gera tillögu um að framleiðslukvöðin yrði 90%.

Megi okkur öllum farnast vel á komandi vetri, ef hann kemur einhvern tíman.

 

Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, stjórnarmaður LK.

 

/SS