Beint í efni

LBS birtir niðurstöður efnamælinga á áburði – í haust

15.03.2007

Á aðalfundi LK 2006 var samþykkt svofelld ályktun: „Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 skorar á Landbúnaðarstofnun að birta ætíð upplýsingar um þær áburðar- og fóðurtegundir sem ekki standast kröfur hennar og upplýsa hvernig þeim er ráðstafað.

Greinargerð: Á heimasíðu Aðfangaeftirlits kemur fram að árið 2004 voru tekin 31 sýni úr innfluttum áburði frá nokkrum innflytjendum, þar af reyndust 8 sýni ekki standast uppgefin gildi. Árið 2005 voru síðan tekin 45 sýni, þar af stóðust 10 sýni ekki uppgefin gildi. Ekki kemur fram um hvaða tegundir áburðar er að ræða eða frá hvaða innflytjendum hann er, né heldur hvernig honum er ráðstafað.  Þar eð sýni úr umræddum áburðartegundum eru væntanlega ekki tekin fyrr en hann er kominn til landsins, hlýtur að vakna sú spurning hvað gert er við hann. Er það raunin að hann sé seldur á markaði eða er honum ráðstafað með öðrum hætti? Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa bænda að þeir viti hvort á markaði eru slík vara og þá hver hún er og frá hvaða seljendum“.

 

Fyrir stuttu barst LK svar LBS varðandi þetta mál og er það á þessa leið: „Landbúnaðarstofnun hefur nú ákveðið að birta á heimasíðu sinni allar niðurstöður efnagreininga á áburði, sem gerðar eru á hennar vegum, með upplýsingum um áburðartegundir og innflutingsfyrirtækin. Þessi ákvörðun kemur til framkvæmda á þessu ári, þannig að niðurstöður áburðarefnagreininga þessa árs verða birtar í einu lagi á heimasíðu Landbúnaðarstofnunar á næstu haustmánuðum.

Landbúnaðarstofnun tekur nú sýni af öllum áburðartegundum sem notaðar eru til fóðurframleiðslu en ekki eru settar neinar hömlur á dreifingu áburðarins til bænda, og því oft búið að nota hann þegar niðurstöður úr efnamælingunni liggja fyrir. Séu niðurstöðurnar úr mælingum á sýni utan leyfilegra vikmarka samkvæmt reglugerð er áburðurinn tekinn af skrá. Vilji áburðarsalinn áfram flytja inn viðkomandi áburðartegund þarf að endurskrá þessa tegund áður en hún er boðin til sölu. Áburðurinn er þá skráður með því skilyrði að taka þurfi sýni af honum við komuna til landsins og ekki er leyfilegt að dreifa honum til bænda nema að niðurstöður efnamælinga séu innan leyfilegra marka. Ef áburðurinn stenst enn ekki efnamælingar er um þrjár leiðir að velja: endursenda áburðinn, farga honum eða endurmerkja hann með tilliti til fenginna efnagreiningarniðurstaðna.

Landbúnaðarstofnun hefur rætt um að birta niðurstöður úr efnamælingum á fóðri en ákveðið að birta þær ekki á þessu ári. Málið verður tekið til skoðunar að nýju snemma á næsta ári“. Undir bréfið ritar Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður matvæla- og umhverfissviðs. Um leið og LBS er þakkað fyrir viðbrögðin við ályktuninni, skorar Landssamband kúabænda á stofnunina að birta niðurstöður efnamælinga á fóðri og áburði á heimasíðu sinni, svo fljótt sem verða má eftir að þær liggja fyrir.