Beint í efni

Lausagöngufjós algengust á Íslandi

25.01.2018

Landssamband kúabænda hefur nú gefið út sína áttundu skýrslu í flokkinum „Þróun fjósbygginga og mjaltatækni“ og nær þessi skýrsla til árabilsins 2015-2017. Í skýrslunni kemur m.a. fram að í árslok 2017 voru 573 fjós í mjólkurframleiðslu á Íslandi en haustið 2007 voru þau 720 og hefur fjósum því fækkað um 147 á síðasta áratug eða um 20,4%. Ef litið er til þróunarinnar síðustu tvö ár þá hefur fjósum hér á landi fækkað um 45 eða 7,3%. Þessi þróun hér á landi er afar áþekk þeirri þróun sem á sér stað um alla Evrópu þar sem fjósum hefur verið að fækka um 4-8% á ári en þrátt fyrir það hefur mjólkurframleiðslan ekki dregist saman, þar sem þau bú sem eftir standa bæta við sig í framleiðslu eða fjölda kúa.

Undanfarna áratugi hafa orðið gríðarlega miklar breytingar í húsvist íslenskra mjólkurkúa frá því að flestar kýr hafi verið hýstar í básafjósum yfir í að vera hýstar í lausagöngufjósum og hefur meirihluti kúnna á Íslandi verið í lausagöngufjósum í nærri áratug og nú er reiknað hlutfall þeirra sem eru í lausagöngu 69%. Í skýrslunni kemur jafnfram fram að básafjós séu ekki lengur ráðandi í fjölda og hafa lausagöngufjós tekið við sem algengasta fjósgerðin á Íslandi, en þróunina má sjá á myndinni sem fylgir þessari frétt.

Í skýrslunni er fjósgerðum skipt upp í tvo yfirflokka og samtals fimm undirflokka þar sem yfirflokkarnir eru annars vegar básafjós og hins vegar lausagöngufjós. Undirflokkar þessara tveggja fjósgerða taka svo mið af þeirri mjaltatækni sem er í notkun í fjósunum. Niðurstöðurnar eru svo settar fram í töflu í skýrslunni en þar kemur m.a. fram að frá árinu 2007 hefur básafjósum fækkað úr 504 í 275 eða um 45% á 10 árum. Á sama tíma tíma hefur lausagöngufjósum fjölgað úr 214 í 298 sem er rúmlega 39% aukning á liðnum áratug. Veigamesta breytingin á þessum 10 árum er auðvitað mikill framgangur fjósa með mjaltaþjóna. Á þeim tíma hefur fjósum á Íslandi fækkað um tæplega 150 fjós, en á sama tíma hefur mjaltaþjónafjósum fjölgað um rúmlega 100.

Í skýrslunni kemur margt annað áhugavert fram s.s. varðandi afurðasemi mismunandi fjósgerða, þróun á landsvísu og innan landshluta auk fleiri þátta. Skýrsluna má lesa hér á naut.is undir flipanum „Upplýsingar“ og þar undir „Ýmsar skýrslur“ eða með því að smella hér/SS.