Beint í efni

Landsýn – Vísindaþing landbúnaðarins

13.03.2013

Ráðstefnan Landsýn – Vísindaþing landbúnaðarins, var haldin á Hvanneyri á föstudaginn síðasta. Á ráðstefnunni voru fjórar málstofur og því fjöldi áhugaverðra erinda um landbúnað. Þó svo að einungis tvö erindi af 51 hafi með beinum hætti snúið að nautgriparækt snéru nokkur óbeint að nautgriparækt, s.s. að jarðrækt og heimavinnslu afurða. Ástæða til þess að benda lesendum naut.is á samantekt erindanna sem má nálgast á heimasíðu þingsins: www.skrina.is/landsyn.

 

Ágrip þeirra tveggja erinda sem lutu beint að nautgriparækt má lesa hér fyrir neðan er það voru erindin „Aukin sjálfbærni í fóðrun mjólkurkúa – áhrif bygggjafar á át og afurðir“ og „Kálfadauði II – niðurstöður framhaldsrannsóknar“

 

Aukin sjálfbærni í fóðrun mjólkurkúa – áhrif bygggjafar á át og afurðir
Grétar Hrafn Harðarson og Jóhannes Sveinbjörnsson
 
Veturinn 2008-9 fór fram á Stóra-Ármóti tilraun, þar sem skoðuð voru áhrif af misháu hlutfalli byggs í fóðri mjólkurkúa á át, afurðir og efnainnihald mjólkur. Fóðrun kúnna var sambærileg á geldstöðunni og fyrstu 3 vikur mjaltaskeiðsins, en eftir það var skipt yfir á tilraunafóður. Fóðrið sem kýrnar fengu á tilraunafóðurtímabilinu innihélt 25% súrsað bygg, 40% vothey og 35% kjarnfóður. Kolvetnahluti kjarnfóðursins var settur saman á mismunandi hátt eftir fóðrunarmeðferðum, þ.e. 100% bygg (BH); 50% bygg + 50 % maís (BM); 100% maís (BL).

  

Bein áhrif af mismunandi háu hlutfalli byggs í fóðri kúnna í þessari tilraun voru lítil hvað varðar magn og efnainnihald mjólkurinnar. Hins vegar voru nokkur áhrif á át kúnna, í þá veru að vaxandi hlutfall byggs leiðir til meira heildaráts.  Líkleg skýring er að lystugleiki sé meiri, og e.t.v. er betra vambarumhverfi í þeim kúm sem mest fengu af byggi. Ekki var munur á afurðum nema hjá fyrsta kálfs kvígum þar sem kvígur sem fengu mest bygg mjólkuðu best.

 

Tilraunin sýnir á ótvíræðan hátt að bygg getur verið meginuppistaðan í sterkjufóðrun mjólkurkúa a.m.k. þegar heilfóður er gefið.  Engar vísbendingar komu fram sem bentu til þess að hátt hlutfall byggs í heildarfóðri hefði neikvæð áhrif á heilsufar eða afurðir. Niðurstöður þessarar tilraunar eru mjög mikilvægar fyrir kúabændur og jafnframt þjóðarbúið því þær gefa okkur möguleika á aukinni sjálfbærni og minnkuðum innflutningi á kornvöru.

 
Kálfadauði II – niðurstöður framhaldsrannsóknar
Grétar Hrafn Harðarson, Snorri Sigurðsson, Jóhannes Sveinbjörnsson og Baldur Helgi Benjamínsson
 
Á árunum 2006-2008 var unnið að stóru rannsóknarverkefni er greindist í sex undirverkefni sem náðu til almennrar þekkingaröflunar um þætti sem hugsanlega gætu skýrt orsakir hárrar tíðni dauðfæddra kálfa og/eða veitt innsýn í lífeðlisfræðilega röskun sem valdið geta því að kálfurinn deyr við burð. Meginmarkmið verkefnisins sem hér er greint frá var að skoða þroska kvígna sem báru dauðum kálfum og hann borinn saman við þroska kvígna sem báru eðlilega enda var þetta eitt af þeim atriðum sem fyrri rannsókn gaf tilefni til að rannsaka betur. Jafnframt var markmið verkefnisins að efla tengsl við erlenda sérfræðinga á þessu sviði, en kálfadauði er alþjóðlegt vandamál.

 

Valin voru 38 kúabú í Árnes- og Rangárvallasýslum og kvígur sem ýmist voru nýlega bornar eða áttu stutt í burð metnar. Fjórar breytur fengust við þessa skoðun; holdastig, brjóstmál, breidd milli mjaðmarhorna og aldur við burð.  Hvert bú var heimsótt tvisvar á rannsóknatímanum, í nóvember 2011 og febrúar 2012.  Alls voru skoðaðar 479 kvígur, dauðfæddir kálfar voru 131 eða um 27%.  Hvorki var munur á stærð og þroska kvígna né á aldri við burð hjá kvígum sem báru dauðum kálfum og hinum sem báru lifandi kálfum.
Í ljósi þessa var ákveðið að útvíkka verkefnið og skoða gögn skýrsluhalds nautgriparæktarinnar síðustu 8 ár. Mikill breytileiki milli nauta kom þar fram á lífsþrótti kálfa.

/SS