Beint í efni

Landstólpi með fóðurbíl!

11.02.2012

Í síðustu viku kom til landsins nýr fóðurbíll á vegum fyrirtækisins Landstólpa ehf. Með tilkomu hins nýja fóðurbíls ætlar fyrirtækið sér stóra hluti á íslenska kjarnfóðurmarkaðinum og af þessu tilefni tók naut.is  hann Arnar Bjarna Eiríksson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, tali.

 

Fyrst var Arnar Bjarni spurður út í það með hvaða hætti kúabændur landsins myndu  verða varir við þennan valkost á fóðurmarkaðinum: „Það má segja að fyrst og síðast sé það með því að nú eykst val bændanna á birgjum sínum, sem á þá á móti að stuðla að frekara aðhaldi í verðum og allir verða að vera á tánum gagnvart gæðum. Nú þegar er þó nokkur flóra af kjarnfóðurblöndum fyrir kýr á markaðnum en verulega frábrugðnar að gæðum. Við ákváðum reyndar að vera eingöngu með hágæða blöndur, sem henta mjög vel íslenskum kúm“, sagði Arnar Bjarni í viðtali við naut.is.

 

En hvernig er fóðrið selt og hvað kostar það? „Fóðrið er afgreitt með hefðbundnum hætti þ.e.a.s. með tankbíl og blásið upp í síló. Verðið er að sjálfsögðu breytilegt eftir prótein innihaldi og höfum við ákveðið að verðleggja fóðrið komið í síló innan ákveðinnar fjarlægðar frá starfstöð. Sem dæmi má nefna að tonnið af 19% fóðurbæti (Icefeed 19) innan u.þ.b. 50 km. radíuss frá starfstöð okkar kostar kr. 70,-/kg án vsk. komið í síló. Svo bjóðum við upp á dreifingu um allt land en verðum að miða við að ná eðlilegri nýtingu á bílinn til að halda kostnaði í lágmarki á fjarlægari svæðum“.

 

Hvað er svona sérstakt við þetta fóður sem þið hafið þróað með Hollenskum fóðurfræðingum? „Við teljum okkur afskaplega heppin að hafa komist í samband við hollenska stórfyrirtækið De Huis sem er eitt af 20 stærstu fóðurfyrirtækjum heims. Þeir hafa yfir að ráða mjög hæfum fóðurfræðingum og sá sem hefur verið okkur mest innan handar og þróað okkar blöndur í það sem þær eru í dag, er yfirmaður alþjóðadeildar kúafóðurs hjá De Huis og auk þess er hann yfir hollenska markaðnum líka. Hann hefur lagt mikla áherslu á jafnvægisstillingu vambarinnar gagnvart sýrustigi, sem er mjög mikilvægt og þá einkum og sér í lagi ef menn eru að gefa bygg með. Einnig veitti hann því athygli að járn í íslensku gróffóðri er meira en gerist og gengur í nágrannalöndunum og því hefur hann aukið verulega stein- og snefilefna innihald fóðursins þar með talið selen, þar sem að mikið járn hefur neikvæð áhrif á upptöku ýmissa stein- og snefilefna“, segir Arnar Bjarni og bætir við: „Einnig hefur hann þróað blöndu sem við höfum kosið að kalla Icepro 26 sem er hugsuð með bygggjöf allt að 50/50 hlutfalli. Í þeirri blöndu er enn aukið hlutfall vítamína og snefilefna til að bætu upp hversu byggið er snautt af þeim. Til gamans má geta þess að þessi blanda kom sérstaklega vel út þegar hún var sett inní Norfor fóðurmatskerfið“.

 

Að sögn Arnars Bjarna hefur fóðrið verið í þróun hjá Landstólpa og De Huis síðastliðin fimm ár og hafa bændur tekið vel þessu fóðri og væntir hann mikils af framhaldinu, sér í lagi vegna góðrar sérfræðiþekkingar innan framleiðslufyrirtækisins De Huis. De Huis leggur mikla áherslu á beina ráðgjöf til kúabænda og því vildi Arnar Bjarni koma því á framfæri við lesendur naut.is að fyrirtækið væri einmitt þessa dagana að leita að slíkum starfskrafti, sem hefði haldgóða menntun í fóðurfræði og gæti ferðast á milli bænda með ráðgjöf og fróðleik/SS.