Beint í efni

Landssamband kúabænda stofnar útibú á Akureyri

05.05.2010

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda hefur nú flutt búferlum til Akureyrar ásamt fjölskyldu sinni. Hafa samtökin tekið skrifstofuaðstöðu á leigu í Búgarði, Óseyri 2. Heimilisfang samtakanna verður eftir sem áður að Bitruhálsi 1 í Reykjavík og munu þau halda þeirri skrifstofuaðstöðu sem þar er. Mun framkvæmdastjóri sinna starfi sínu á þessum tveimur stöðum eftir því sem aðstæður krefjast.

Þó þessar breytingar kalli á tvöfalt skrifstofuhald, verður hér eftir sem hingað til leitast við að halda kostnaði LK vegna aðstöðu innan skikkanlegra marka.

 

Framkvæmdastjóri er ekki ókunnugur í Búgarði, þegar hann starfaði hjá Bændasamtökum Íslands árin 2002-2005 hafði hann aðstöðu þar í húsi. Væntir hann góðs af samskiptum og samstarfi við þá sem þar starfa.

 

Í Búgarði eru nú til húsa nokkur samtök, stofnanir og fyrirtæki. Fyrst ber að telja ráðgjafaþjónustu Búnaðarsambands Eyjafjarðar, Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga og Búnaðarsambands Norður-Þingeyinga sem rekin er undir nafninu Búgarður, Bókhaldsfyrirtækið Bókvís, Byggingafulltrúi Eyjafjarðar, Ungmennasamband Eyjafjarðar, Landbúnaðarháskóli Íslands, Möðruvellir ehf og Bændasamtök Íslands. Frá 1. maí sl. bættist svo Landssamband kúabænda í þennan fríða flokk.