Beint í efni

Landssamband kúabænda 35 ára

06.04.2021

Á páskadag, 4. apríl sl., voru 35 ár liðin frá stofnun Landssambands kúabænda. Félagið var stofnað á tímamótum í íslenskum landbúnaði og fékk m.a. í vöggugjöf að þurfa að móta framleiðslustjórnunarkerfi fyrir mjólkurframleiðsluna. Síðan þá hafa mörg og breytileg mál verið á verkefnalista sambandsins og er LK í dag í forsvari fyrir kúabændur landsins í öllum veigamiklum málum er lúta að nautgriparækt.

Stofnfundur Landssambands kúabænda var haldinn 4. apríl 1986. Fundarboðandi var Félagsráð Osta- og smjörsölunnar og var fundurinn haldinn í húsakynnum hennar. Fundinn sátu 20 fulltrúar frá 9 félögum kúabænda. Einnig fulltrúar frá Félagsráði Osta- og smjörsölunnar og fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands. Á fundinum var samþykkt að stofna Landssamband kúabænda og því settar samþykktir.

Fyrsta stjórn sambandsins var þannig skipuð: Formaður; Hörður Sigurgrímsson. Meðstjórnendur; Guðmundur Þorsteinsson, Oddur Gunnarsson, Halldór Guðmundsson og Sturlaugur Eyjólfsson. Varamenn; Guðmundur Lárusson og Ólafur Þórarinsson.

Að LK standa í dag 13 aðildarfélög, sem mynda Landssamband kúabænda eins og það er í dag. Landssamband kúabænda (LK) er hagsmunagæslufélag nautgripabænda á Íslandi. Í stórum dráttum má skipta verkefnum sambandsins í þrjá þætti: fagleg mál, félagsmál og markaðsmál.