Beint í efni

Landssamband kúabænda 25 ára í dag

04.04.2011

Í dag voru liðin 25 ár frá stofnun Landssambands kúabænda. Fundarboðandi var Félagsráð Osta- og smjörsölunnar og var stofnfundurinn haldinn í húsnæði hennar að Bitruhálsi 2 í Reykjavík. Þáverandi forstjóri OSS, Óskar H. Gunnarsson var einn af aðal hvatamönnunum að stofnun samtakanna. Fundinn sátu 20 fulltrúar frá 9 félögum kúabænda. Einnig fulltrúar frá Félagsráði Osta- og smjörsölunnar og fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands. Á fundinum var samþykkt að stofna Landssamband kúabænda og því settar samþykktir.

 

Árin þar á undan hafði verið talsverð ólga meðal kúabænda, enda var þá verið að laga mjólkurframleiðsluna að nýjum markaðsaðstæðum og breyttu stuðningskerfi. Um þær mundir voru mjólkurframleiðendur rúmlega 1.800 og framleiddu þeir um 115 milljónir lítra mjólkur árlega. Lang flestar kýr landsmanna voru hýstar í básafjósum. Nokkur hluti fjósanna var með mjaltabás, en lausagöngufjós voru fátíð. Sex ár voru ennþá í að fyrsti mjaltaþjónnin í heiminum yrði tekinn í gagnið.  Hey var að mestu leyti súgþurrkuð taða í hlöðum, laust eða í böggum. Rúllubindivélar voru sjaldséðar. Gjafir fóru að mestu leyti fram með handafli. Nú, 25 árum síðar, eru mjólkurframleiðendur tæplega 690 talsins, ársframleiðslan 2010 var rúmlega 122 milljónir lítra mjólkur. Yfir helmingurinn af kúnum er hýstur í lausagöngufjósum, fjöldi mjaltaþjóna er 117, um 90% af heyfengnum er verkaður í rúlluhey og víða hafa margs konar fóðrunarkerfi leyst vöðvaaflið af hólmi við gjafir. Eldir fjós hafa einnig verið endurbætt, t.d. með brautakerfum fyrir mjaltabúnaðinn. Aðbúnaður manna og gripa hefur því tekið stakkaskiptum til hins betra. Stofnár LK fór nautakjötsframleiðslan í fyrsta skipti yfir 3.000 tonn, og skiptist þá til helminga í ungneytakjöt og kýrkjöt.  Á liðnu ári var nautakjötsframleiðslan nærri 3.900 tonn og þar af voru tæp 60% af ungnautum. Á fyrstu starfsárum landssambandsins hafði það forgöngu um að til landsins voru flutt tvö holdakyn, Angus og Limousine. Væntingar um kjötframleiðslueiginleika þeirra gengu fullkomlega eftir. Gæði kjötframleiðslunnar eru jafnari og meiri en áður var. Á síðasta aðalfundi Landssambands kúabænda voru lögð drög að stefnumótun samtakanna næsta áratuginn. Varða þau leiðina inn í næstu 25 ár í sögu nautgriparæktarinnar hér á landi. 

 

Eftirtaldir fulltrúar sátu stofnfundinn:
 

Frá Félagi kúabænda á Suðurlandi: Guðmundur Lárusson, Sigurður Steinþórsson, Guðjón Eggertsson, Egill Sigurðsson, Steingrímur Lárusson, Bergur Pálsson, Ómar H. Halldórsson og Kjartan Georgsson.

Frá Félagi kúabænda í Skagafirði: Jón Guðmundsson og Sverrir Magnússon.

Frá Félagi kúabænda á sunnanverðu Snæfellsnesi: Magnús Guðjónsson.

Frá Félagi húnveskra kúabænda: Halldór Guðmundsson og Jón Eiríksson.

Frá Félagi eyfirskra nautgripabænda: Oddur Gunnarsson og Benjamín Baldursson.

Frá Félagi kúabænda í Mýrasýslu: Þorkell Guðbrandsson.

Frá Hagsmunafélagi mjólkurinnl. á svæði við Búðardal: Vilhjálmur Sigurðsson.

Frá Félagi kúabænda í Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar: Jón Gíslason.

Frá Mjólkursamlagi Kjalarnesþings: Pétur Lárusson og Sigurbjörn Hjaltason.

 

Fyrsta stjórn sambandsins var þannig skipuð:
 

Formaður; Hörður Sigurgrímsson. Meðstjórnendur; Guðmundur Þorsteinsson, Oddur Gunnarsson, Halldór Guðmundsson og Sturlaugur Eyjólfsson. Varamenn; Guðmundur Lárusson og Ólafur Þórarinsson.

 

Á árshátíð Landssambands kúabænda sem haldin var í lok mars voru þrír af stofnfélögum LK, þeir Jón Gíslason, Lundi, Egill Sigurðsson, Berustöðum og Benjamín Baldursson, Ytri-Tjörnum. Þeir eru allir starfandi kúabændur í dag.

 

Glaðbeittir stofnfélagar Landssambands kúabænda á 25 ára afmælisárshátíð samtakanna í Sjallanum á Akureyri 26. mars sl. F.v. Jón Gíslason, Lundi í Lundarreykjadal, Egill Sigurðsson, Berustöðum, Ásahreppi og Benjamín Baldursson, Ytri-Tjörnum, Eyjafjarðarsveit