Beint í efni

Landsmót hestamanna í Skagafirði

21.06.2011

Landsmót hestamanna var haldið á Vindheimamelum í Skagafirði dagana 26. júní til 3. júlí. Fjöldi hrossa á landsmóti hefur aldrei verið meiri en í gæðingahluta mótsins voru skráð 473 hross, í tölt og skeiðgreinarnar voru skráð 55 hross og í kynbótahlutann voru skráð hvorki meira né minna en 249 hross, 120 stóðhestar og 129 hryssur.

Allar upplýsingar um Landsmót hestamanna er að finna á vef mótsins, www.landsmot.is.

Saga Landsmótanna nær aftur til 1950 þegar fyrsta Landsmótið var haldið á Þingvöllum. Þar voru sýnd 133 hross, kynbótahross, gæðingar og kappreiðahross. Á þeim tíma var aðeins keppt í einum flokki gæðinga sem var flokkur alhliða gæðinga, auk kappreiða og kynbótasýninga.

Eftir það voru haldin Landsmót á fjögurra ára fresti, allt þar til að á ársþingi Landssambands Hestamannafélaga 1995 var samþykkt að halda Landsmót á tveggja ára fresti. Fyrsta mótið sem haldið var eftir þeim reglum, þ.e. á tveggja ára fresti var Landsmót í Reykjavík árið 2000.

Landsmót hestamanna hefur verið stærsti íþróttaviðburður landsins frá upphafi, enda er Landssamband hestamannafélaga þriðja stærsta sérsambandið innan ÍSÍ, með rúmlega 11.000 félagsmenn.

Landsmót er í dag einkahlutafélag (ehf) að 2/3 hluta í eigu Landssambands hestamannafélaga og að 1/3 hluta Bændasamtaka Íslands. Félagið var stofnað árið 2001 með það að markmiði að vera rekstaraðili Landsmótanna. Fyrsta mótið sem einkahlutafélagið stóð að var árið 2002 á Vindheimamelum í Skagafirði og hefur rekstur mótanna verið með þeim hætti síðan.

Vefur Landsmóts hestamanna: www.landsmot.is

Mynd: Vefur Landsmóts hestamanna.