Beint í efni

Landsmót á Vindheimamelum

22.06.2011

Nú er ljóst að 249 kynbótahross náðu lágmörkum til þátttöku í einstaklingssýningum landsmóts, um 42 klukkustundir myndi taka að dæma þau öll á Vindheimamelum. Ekki munu þau þó mæta öll til kynbótadóms á mótinu. Einn hestur hefur áður tekið þátt í elsta flokki á landsmóti og á því ekki þátttökurétt, líklegt er að einhverjir gripir muni taka þátt í gæðingakeppni mótsins og ekki verða gjaldgengir í kynbótasýninguna af þeim orsökum. Þá er ekki ólíklegt að einhver heltist úr lestinni af öðrum orsökum.  Öll þau hross sem náðu lágmörkum munu verða í landsmótsskránni en vegna hagræðis við endanlega skipulagningu dagskrár er mikilvægt að ég fái sem fyrst upplýsingar um þau hross sem ekki munu mæta til kynbótadóms.

Nýtt kynbótamat er nú í vinnslu, þegar það liggur fyrir verður ljóst hvaða stóðhestar hafa þátttökurétt í afkvæmasýningum á landsmóti. Nauðsynlegt er fyrir eigendur líklegra hesta að ganga nú þegar í að ákveða hvaða hross eigi að fylla sýningarhópinn. Hópur 1 verðlauna hestanna eru sex hross og tvö til vara og heiðursverðlauna hestanna 12 hross og tvö til vara. Ég mun ganga eftir þeim listum fljótlega eftir að matið liggur fyrir, þannig að listarnir komist í landsmótsskrána. Rétt er að ítreka að sömu reglur gilda um járningar og annan búnað og í hefðbundinni kynbótasýningu. Þó er heimild fyrir fráviki þegar um er að ræða afkvæmi sem sannarlega tekur þátt í gæðinga- eða íþróttakeppni mótsins. Þetta á þó eingöngu við um þátttöku afkvæmis í afkvæmasýningunni sjálfri en ekki ef um er að ræða sýningu í einstaklingsdómi.  Rétt er einnig að ítreka að öll afkvæmi sem sýnd eru í afkvæmasýningu skulu hafa hlotið kynbótadóm.

Heimsmeistaramót í Austurríki

Ráðgert er að fulltrúar Íslands í kynbótasýningu heimsmeistaramótsins í Austurríki verði sex að tölu í aldursflokkunum 5 vetra, 6 vetra og 7 vetra og eldri, hestur og hryssa í hverjum flokki. Val mun fara fram strax að loknu landsmóti. Þátttaka krefst að sjálfsögðu talsverðs undirbúnings m.a. vegna söfnunar fjár og sölumeðferðar hrossa. Ég hef nú þegar hafið yfirferð yfir efstu hross vorsýninga í þessum aldursflokkum og mun í framhaldinu hafa samband við eigendur líklegra hrossa til að kanna áhuga á landsliðssæti.

Með hrossaræktarkveðjum!

Guðlaugur V. Antonsson            

Hrossaræktarráðunautur  BÍ.

Sími: 892-0619

Netpóstfang: ga@bondi.is