Beint í efni

Landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt

20.06.2019

Landbúnaðarháskóli Íslands gaf nýverið út skýrslu þar sem til umfjöllunar er landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt.  Í skýrslunni er fjallað um þróun og stöðu landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt og dregin fram ákveðin atriði sem Landbúnaðarháskóli Íslands telur gagnrýniverð í framkvæmd gæðastýringarinnar. 

Gæðastýringu í sauðfjárrækt var á sínum tíma komið á af frumkvæði bænda. Hún tekur til margra þátta varðandi aðbúnað og umhverfi, sauðfjárskýrsluhald, jarðrækt, fóðrun, heilsufar, lyfjanotkun, afurðir og landnýtingu. Markmið gæðastýringarinnar að hálfu bænda er að láta þá bændur sem stunda góða búskaparhætti eða vinna markvisst að því að bæta sína búskaparhætti njóta þess í auknum stuðningsgreiðslum, auk þess að samræma kröfur og skráningar vegna þessara þátta. Það er mat Landssamtaka sauðfjárbænda að vel hafi tekist til þegar á heildina er litið og eru í skýrslu LbhÍ dregnir fram kostir við landnýtingarþátt gæðastýringarinnar sem Landssamtök sauðfjárbænda taka undir. Það eru þættir eins og mjög aukin landgræðsla undir forustu bænda, styttri beitartími, beitarfriðun viðkvæmustu svæðanna, minni hrossabeit á afréttum, söfnun vísitalna og síðast en ekki síst aukin samskipti fagfólks við bændur í gegnum samstarf við landbótaáætlanir. Gæðastýring í sauðfjárrækt er þó ekki hafin yfir gagnrýni.