Beint í efni

Landnýting, loftslagsmál og umhverfisvernd eru uppistaða nýrrar landbúnaðarstefnu ásamt tækni og nýsköpun

01.04.2023

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu á Alþingi í vikunni. Stefnan er mörkuð til ársins 2040 og byggir á skjalinu Ræktum Ísland ásamt áherslum matvælaráðherra og nýs matvælaráðuneytis eftir að það tók til starfa hinn 1. febrúar 2022.

Heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússlands í Úkraínu hafa að auki breytt ýmsum forsendum gagnvart fæðuöryggi þjóðarinnar og því er sérstök áhersla lögð á fæðuöryggi, loftslagsmál og hringrásarhagkerfi í stefnudrögunum.

Landnýting, loftslagsmál, umhverfisvernd ásamt tækni og nýsköpun eru þær lykilbreytur sem talið er að muni hafa mikil áhrif á þróun landbúnaðar í heiminum á komandi árum og byggir landbúnaðarstefnan á þeim. Í tillögunni er sett fram metnaðarfull framtíðarsýn varðandi heildarumgjörð landbúnaðar sem tekur jafnframt til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni landbúnaðarafurða.

Til að framtíðarsýnin verði að veruleika er áhersla lögð á tíu meginviðfangsefni:

  • Fæðuöryggi
  • Loftslagsmál
  • Líffræðileg fjölbreytni
  • Landnýting og varðveisla landbúnaðarlands
  • Hringrásarhagkerfið
  • Alþjóðleg markaðsmál
  • Neytendur
  • Nýsköpun og tækni
  • Menntun, rannsóknir og þróun
  • Fyrirkomulag stuðnings við landbúnað

Meginmarkmið stefnunnar er að efla og styðja við íslenskan landbúnað þannig að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Til þess að hrinda stefnunni í framkvæmd er kveðið á um að gerðar verði aðgerðaáætlanir til fimm ára í senn.

„Með því að leggja fram stefnumörkun til lengri tíma tel ég að við séum að ná mikilvægum áfanga í því að auka fyrirsjáanleika, bæði fyrir bændur og neytendur. Einfaldara verði að meta árangur af stefnumótun þegar mælikvarðar verði lagðir til grundvallar markmiðum í landbúnaðarstefnu“ sagði matvælaráðherra. „Ég finn það á fundum mínum með bændum að það skiptir máli að við sem þjóð höfum stefnu í málefnum landbúnaðar, umfram það sem kemur fram í markmiðum laga og búvörusamninga. Það skiptir miklu máli að grunnur landbúnaðar sé traustur“.

/stjórnarráðið