
Landbúnaður skiptir máli
15.04.2009
Nýr bæklingur er kominn út hjá Bændasamtökunum sem fjallar um mikilvægi fæðuöryggis og matvælaframleiðslu, atvinnu í dreifbýli, fjölbreytni íslensks landbúnaðar og ekki síst þær áskoranir sem landbúnaður stendur frammi fyrir á heimsvísu.
Bæklinginn "Landbúnaður skiptir máli" er hægt að lesa á Netinu með því að smella hér.
Að tilefni kosninga til Alþingis hafa Bændasamtökin sent efstu mönnum á öllum framboðslistum lesefnið og boðið þeim til funda þar sem m.a. verður fjallað um framtíðarhlutverk landbúnaðar í landinu. Fundirnir eru alls fjórir og verða haldnir fimmtudagskvöldið 16. apríl á eftirfarandi stöðum:
Hótel Selfossi
Hlégarði í Mosfellsbæ
Hótel Borgarnesi
Hótel KEA á Akureyri.
Fundirnir hefjast kl. 20:30 en fundur á Akureyri hefst þó ekki fyrr en kl. 21:00 vegna beinnar útsendingar í sjónvarpi.
Tilvonandi alþingismenn verða spurðir ákveðinna spurninga sem m.a. snúa að fæðuöryggi, atvinnu í dreifbýli og hvaða stefnu þeirra flokkur hafi í landbúnaðarmálum. Forystumenn bænda halda stutt framsöguerindi en síðan munu frambjóðendur halda tölu um sín áherslumál og afstöðu gagnvart íslenskum landbúnaði. Á eftir verða umræður þar sem frambjóðendur sitja í pallborði.