
Landbúnaðarsýning í Laugardalshöll hefst í dag!
12.10.2018
Stór og vegleg landbúnaðarsýning verður haldin í Laugardalshöllinni í Reykjavík dagana 12.–14. október 2018. Er setningarathöfn kl. 13:00 í dag, föstudaginn 12. október og er sýningin opin til 19:00.
Langt er um liðið síðan sýning af þessu tagi hefur verið haldin á höfuðborgarsvæðinu og er það fyrirtækið Ritsýn sf. sem heldur utan um viðburðinn. Markmið sýningarinnar er að kynna íslenskan landbúnað og leiða saman fyrirtæki og einstaklinga sem starfa í atvinnugreininni.
Landssamband kúabænda tekur þátt
Fulltrúar Landssambands kúabænda munu taka þátt í sýningunni og munu Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, og Arnar Árnason, formaður samtakanna, standa vaktina í bás Bændasamtaka Íslands laugardaginn 13. október frá kl. 16:00-18:00. Þá verður m.a. boðið uppá grillað nautakjöt í samstarfi við Norðlenska.
kl. 12:30 sama dag verður einnig fyrirlestur á vegum LK um starfsemina á einangrunarstöðinni á Stóra Ármóti. Þar er haldið utan um innflutning fósturvísa frá Noregi af Angus Aberdeen kyni og fæddust fyrstu kálfarnir á stöðinni í september nýliðnum. Sigurður Loftsson, stjórnarformaður Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands, Nautís, munu halda fyrirlesturinn sem ber heitið Ný dögun í holdanautarækt.
Opið frá föstudegi til sunnudags
Sýningin hefst með opnunarhófi kl. 13.00 föstudaginn 12. okt. Þann dag er opnunartími 14.00–19.00, á laugardag 13. okt. 10.00–18.00 og sunnudag 14. okt. 10.00–17.00. Miðar gilda alla helgina en miðaverð er kr. 1.000 og frítt fyrir aldraða, öryrkja, námsmenn og börn yngri en 12 ára í fylgd með fullorðnum.
Við hvetjum bændur og aðra áhugasama að mæta á sýninguna!
Hér fyrir neðan má sjá frekari upplýsingar um sýninguna.

